148. löggjafarþing — 73. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[18:43]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Líkt og kannski gefur að skilja, standandi að meirihlutaáliti atvinnuveganefndar, tek ég undir að mál þetta kom seint inn og ekki gafst nægur tími til að ræða það. Í haust bíður okkar að ræða framtíðarfyrirkomulag þegar kemur að innheimtu veiðigjalda, hvernig stuðla eigi að endurútreikningi þeirra. Í mínum huga er þar mikilvægt að við séum eins nálægt rauntíma og mögulegt er. Ég tel mikilvægt að veiðigjöldin séu afkomutengd og að við hugum vel að litlu og meðalstóru fyrirtækjunum. Við verðum öll að átta okkur á því að ef við förum eftir þessu, að færa þetta nær í tíma, og afkomutengja, mun innheimt upphæð veiðigjaldanna breytast. Í þessu tilviki núna hefði hún lækkað um 1,7 milljarða kr. Ég veit ekki hver staðan verður nákvæmlega í haust en ef við teljum þessar tvær forsendur réttar verðum við að horfast í augu við að innheimt upphæð mun breytast eitthvað.