148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

barnalög.

238. mál
[11:44]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Sú sem hér stendur og lagði fram þetta frumvarp verður að segja eins og er að ef okkur tekst að samþykkja það á Alþingi er um að ræða tímamótmál, risastórt réttlætismál fyrir börn þessa lands. Hér er ekki um að ræða rétt feðra eða rétt mæðra heldur grundvallarréttindi barna til að þekkja uppruna sinn.

Fyrir nefndinni komu fram ýmis sjónarmið í þetta sinn eins og áður. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem málið er flutt en í fyrsta sinn sem það nær svona langt. Einhverra hluta vegna hefur málið ekki verið forgangsmál í vinnslu þingsins. Málið hefur verið rætt í þinginu áður og áður hafa komið fram umsagnir frá ýmsum aðilum, umboðsmanni barna, Barnaheillum og fjölmörgum öðrum sem fagna frumvarpinu mjög af því að um er að ræða mikla grundvallarhagsmuni í lífi barns.

Það eru nokkrar athugasemdir, auk þess sem kom fram í máli hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar, sem vert er að velta upp. Það eru áhyggjur af tilhæfulausum málshöfðunum sem og af því að um sé að ræða grundvallarbreytingu sem ekki sé í samræmi við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum. Varðandi það vil ég benda á að í 15. gr. barnalaga er kveðið skýrt á um að ef fram á að fara mannerfðafræðileg rannsókn til að kanna faðerni barns þarf úrskurð dómara. Ef varnaraðili í svona máli mótmælir því að fram fari slík rannsókn vegna þess að engar líkur eru á að málshefjandi sé faðir barnsins úrskurðar dómari um það, þá fer fram málflutningur um það. Ef um tilhæfulausa málsmeðferð er að ræða, ef um er að ræða einhvern sem höfðar mál algjörlega án nokkurs tilefnis, ef viðkomandi hefur aldrei verið við móður kenndur eða annað slíkt, er málinu einfaldlega vísað frá. Þá er málið fellt niður og kröfu um mannerfðafræðilega rannsókn, DNA-rannsókn eins og hún kallast í daglegu tali, einfaldlega hafnað og málið fellur um sjálft sig. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að einstaklingar sem ekki eru að hugsa um hagsmuni barns fari og geri eitthvert áhlaup á dómstóla til að þvælast fyrir.

Í dag er það svo að maður sem telur sig föður barns getur alltaf höfðað málið. Hann getur látið birta stefnu og byrjað málið. Sá sem er til varna þarf að taka til varna og krefjast frávísunar vegna aðildarskorts, krefjast sýknu vegna þess að sá umræddi karl á ekki aðild að málinu. Það er alveg hægt í dag að þvælast fyrir og vera með leiðindi. Í þessu máli er um það að ræða að ef barnið er feðrað getur sá maður sem telur sig föður barns höfðað mál til leiðréttingar á faðerni. Þetta er auðvitað algjört prinsippmál og ég fagna því af öllu hjarta ef þinginu tekst að koma því í gegn.