148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[13:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég vil kannski geta þess í upphafi að Miðflokkurinn er með sérstaka byggðaáætlun á stefnuskrá sinni, lagði áherslu á það fyrir síðustu alþingiskosningar. Sú áætlun nefnist Landið allt og felst í því að hugsa um landið sem eina heild eða eitt samfélag. Í því felst að gera þarf heildaráætlun sem tekur á öllum þáttum samfélagsins og þeirri framtíðarsýn sem við höfum fyrir landið okkar. Við leggjum áherslu á að það þarf að samstilla ólíkar aðgerðir svo að eitt styðji á sem bestan hátt við annað. Samhæfing aðgerða þarf að eiga sér stað frá einum stað. Það er einnig mikilvægt að þannig sé á málum haldið að tækifæri séu nýtt um land allt. Þannig verði komist hjá því að hver vinni í sínu horni án yfirsýnar. Við þurfum að sjálfsögðu, eins og við vitum öll, að fjárfesta í landinu öllu og snúa vörn í sókn í þessum efnum.

Mig langar hér aðeins að fjalla um það sem kemur fram í undirkaflanum Aðgengi að þjónustu. Þar er fjallað um orkukostnað heimilanna á landsbyggðinni, að hann verði jafnaður. Það er að sjálfsögðu afar brýnt verkefni og brýnt hagsmunamál fyrir fjölmörg heimili á landsbyggðinni, sem kynda hús sín með rafmagni, en það eru u.þ.b. 7% af heimilum landsins sem notast við rafmagnskyndingu.

Mér finnst hins vegar ekki koma nægilega fram í þessari þingsályktunartillögu með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar að jafna þennan orkukostnað. Það hafa verið gerð hér, m.a. í þessum sal, að mínum dómi, mistök sem hafa kostað landsbyggðina háar fjárhæðir þegar kemur að hitunarkostnaði húsnæðis sem er kynt með rafmagni. Þar vil ég nefna sérstaklega aðkomu Evrópusambandsins, en það hefur haft mikil áhrif á íslenskan raforkumarkað og markar í raun stóru línurnar um skipulag hans.

Því miður hefur hinum sterku íslensku sérkennum að mínu mati ekki verið haldið nægilega á lofti þegar kemur að innleiðingu tilskipana Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn, þar eru raforkumálin ekki undanskilin. Ég nefni það þegar stjórnvöld innleiddu tilskipun Evrópusambandsins um að skilja á milli sölu og dreifingar raforku árið 2007. Sú fræga tilskipun hafði víðtæk áhrif hér á landi. Það þurfti að skipta fyrirtækjum á borð við Hitaveitu Suðurnesja upp í orkuframleiðslu og raforkusölu og hins vegar dreifingu. Allt hafði það kostnað og mikla fyrirhöfn í för með sér. Þeir sem fóru hins vegar verst út úr þessu sem ég vil kalla valdboði Evrópusambandsins, sem stjórnvöld innleiddu mótbárulaust, voru einmitt íbúar á landsbyggðinni sem kynda húsnæði sitt með rafmagni. Það má eiginlega segja að á einni nóttu hafi rafmagn til húshitunar hækkað um allt að 100% vegna þessarar tilskipunar.

Það er afar brýnt að stjórnvöld kortleggi nákvæmlega hvað það kostar að hita heimili á landsbyggðinni sem ekki búa við hitaveitu í samanburði við þá sem búa við hitaveitu. Það er mikilvægt byggðamál að íbúar á landsbyggðinni, sem njóta ekki þeirra lífsgæða sem hitaveita óhjákvæmilega er, sitji við sama borð og þeir sem hafa hitaveitu. Ég vil hvetja stjórnvöld og ríkisstjórnina til dáða í þessum efnum. Þetta er afar brýnt hagsmuna- og byggðamál.

Ég vil leggja áherslu á það í lokin að Miðflokkurinn leggur áherslu á að stutt verði við þróun ferðaþjónustu á köldum svæðum. Við lögðum einnig á það áherslu fyrir síðustu kosningar að endurgreiða eigi virðisaukaskatt af íbúðarhúsnæði af framkvæmdum á köldum svæðum. Við þekkjum það að uppbygging á köldum svæðum er mun hægari en hjá þeim sem búa t.d. við hitaveitu og búsetuskilyrðin eru ekki hin sömu. Það er alveg ljóst. Þarna höfum við ákveðnar leiðir sem við getum farið til þess að efla þessi svæði og gera landið að einni heild á mörgum sviðum í stjórnkerfinu. Það er eitt af því sem Miðflokkurinn hefur lagt áherslu á í byggðamálum.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði hér áðan, hversu mikilvægt það er að við eflum fjarheilbrigðisþjónustuna. Hún er afar brýnt byggðamál.

Ég vil að lokum fagna því að brátt sér fyrir endann á ljósleiðaravæðingu landsbyggðarinnar, sem er mjög brýnt hagsmunamál. En að sama skapi þurfum við að bæta okkur og efla átakið um að ljúka við þriggja fasa rafmagn sem fjölmargir íbúar á landsbyggðinni búa því miður ekki við.

Herra forseti. Það er af mörgu að taka og ég vona að við berum öll gæfu til þess sem hér erum að bæta búsetuskilyrði á landsbyggðinni.