148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[14:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að þetta er dálítið skrautleg staða sem er komin upp vegna þess að þegar maður skoðar hið undirliggjandi efni málsins er ekki, að því er virðist, mikið tilefni til ágreinings. Þingið hefur þegar tekið einróma afstöðu út úr nefnd, afgreitt í þinginu þingsályktunartillögu um að þetta mál, nákvæmlega það mál sem er verið að deila um, eigi að fara upp í Stjórnarráð til frekari skoðunar, að ráðherrann eigi að skipa nefnd og láta meta kosti og galla þess að fjarlægja húsnæðisliðinn úr vísitölunni. Svo kemur hér frumvarp sem segir að þetta skuli gera strax með lögum. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að þetta sé efnislega sama málið og hafi þegar verið afgreitt af þinginu fyrir nokkrum dögum síðan (Gripið fram í: Þetta er ekki sama málið.) og vísar því þess vegna inn í þann farveg sem þingið sjálft bjó til fyrir það mál fyrir nokkrum dögum. (Gripið fram í: Þetta er ekki sama málið.) Að þetta skuli vera efni í ágreining um það hvers vegna málið kemst ekki til atkvæðagreiðslu er alveg furðulegt. Málið fær nefndarmeðferð. (Forseti hringir.) Það fær fullar þrjár umferðir í þinginu (Gripið fram í.)og kemur svo til atkvæðagreiðslu um frávísunartillöguna. (Forseti hringir.) Verði hún felld verða greidd atkvæði um málið.