148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[16:01]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti talar fyrir sjálfan sig og sinn hlut. Það sem forseti sagði hér áðan er að það hvernig hann hefur staðið að málum, að fundarstjórn og að því að setja mál á dagskrá, er að hans dómi allt í samræmi við það samkomulag sem hér var gert. Forseti hafði engar upplýsingar um að eitt eða neitt stæði út af í þeim efnum fyrr en sirka fimm mínútum fyrir kl. eitt í dag þegar fulltrúi Miðflokksins kom á fundi með formönnum þingflokka fram með það mál að tiltekin tillaga um afgreiðslu máls væri í óþökk Miðflokksins. Forseti blandar sér ekki í það en forseti talar fyrir sjálfan sig og sína fundarstjórn, það hvernig dagskrá er hér sett upp og hvernig staðið er að málum að öðru leyti.

Varðandi ítrekaðar óskir um að forseti leysi þennan vanda með því að gera hlé á fundi hefur forseti tvisvar í dag boðið upp á tíma fyrir samtöl ef það mætti verða til þess að finna leiðir í þessum málum en í bæði skiptin hefur niðurstaðan verið sú að það væri tilgangslaust. Þá verður fram haldið fundi, farið að þingsköpum og farið að dagskrá.

Um leið og forseti fær upplýsingar um að efniviður hafi fæðst í einhver samtöl eða einhvern samkomulagsgrundvöll er hann tilbúinn að skapa svigrúm fyrir það en hér verður ekki felldur niður fundur bara með kröfum af þessu tagi.