149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru að sjálfsögðu þeir sem fá helst vaxtabætur sem eru tekjulægri og eignaminni. Það er eðli vaxtabótakerfisins og því hefur í sjálfu sér ekki verið breytt. Það sem hefur breyst hins vegar er að fleiri eiga meira eigið fé og fleiri hafa hærri tekjur. Þetta hefur valdið því að minni fjármunir fara í vaxtabótakerfið. En eins og ég hef nefnt höfum við á sama tíma varið verulega háum fjárhæðum í aðrar aðgerðir, m.a. til að styrkja leigumarkaðinn, félagslegt húsnæði, fórum í sérstaka skuldaleiðréttingaraðgerð upp á 80 milljarða fyrir ekki mörgum árum síðan o.s.frv., skattafslættir vegna úttektar á séreignarsparnaði. Allt eru þetta aðgerðir — til hvers? Til þess að bæta stöðu heimilanna.

Mætti ég spyrja: Hvernig hefur gengið? Hvernig gekk að bæta stöðu heimilanna eftir fall fjármálafyrirtækjanna?

Staðan er þessi: Fjárhagur heimilanna hefur umbreyst til hins betra. Eiginfjárstaða heimilanna er hærri. Færri eru í vanskilum. En eftir stendur áskorun sem snýr sérstaklega að fyrstu íbúðarkaupum. Þar er vaxtabótakerfið í sjálfu sér ekki einhver töfralausn á vandanum, heldur fjölþættar aðgerðir sem snúa að öllu frá auknu lóðaframboði og þar með meira framboði af smærri íbúðum. Leiðir til þess að lækka byggingarkostnað skipta líka máli. Stöðugleikinn sem ég nefndi áðan með lægri vaxtakostnaði skiptir verulegu máli. Hver er staðan varðandi þann þáttinn? Staðan er sú að fyrir Íslendinga sem hafa tekið húsnæðislán til að fjárfesta í eigin fasteign hafa raunvextir húsnæðislána aldrei í sögunni verið lægri en einmitt í dag. Það hefur líka áhrif á vaxtabótakerfið. Þegar fólk greiðir lægri vexti kemur minna út úr vaxtabótakerfinu.

Ég verð að lýsa ákveðinni undrun á því að sumir virðist halda að við eigum (Forseti hringir.) að hafa bara einhverja fasta tölu í vaxtabótum á fjárlögum og tryggja að hún sé ávallt til staðar alveg óháð því sem er að gerast í raunhagkerfinu, hjá heimilum landsins varðandi tekjur, eignastöðu o.s.frv.