149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:14]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða fjárlagafrumvarp við 1. umr. Hv. þm. Birgir Þórarinsson flutti ágætisræðu um ýmislegt á þeim tíu mínútum sem okkur er ráðstafað í ræðutíma.

Mér fannst gæta ákveðinnar mótsagnar hjá hv. þingmanni og vil því koma inn á nokkur atriði og gefa hv. þingmanni færi á að útskýra sitt mál þannig að ég skilji betur og við fáum betur ráðið í þann þátt. Það tengist þeim parti í ræðunni sem hv. þingmaður hóf mál sitt á, að þetta væri útgjaldafrumvarp, það væri engin ráðdeildarsemi og engin innstæða fyrir þeirri raunaukningu sem við sjáum í frumvarpinu til innviðauppbyggingar. Á sama tíma er vissulega sýnd sýna ráðdeildarsemi, t.d. með því að skila afgangi, 1% af vergri landsframleiðslu, og það í fullu samræmi við ríkisfjármálastefnu, um 3,25% af heildarveltunni, 900 milljörðum tæpum. Það hefur átt sér stað hröð skuldaniðurgreiðsla undanfarin misseri og því er haldið áfram. Af því að hv. þingmaður kom inn á bls. 90 er farið mjög vel yfir þar hversu mikilvægt er að viðhalda þeim efnahagslega ávinningi sem náðst hefur.

Á sama tíma höldum við takti við aukna verðmætasköpun, þann hagvöxt sem býður okkur að auka útgjöld þetta mikið og fara í þá innviðauppbyggingu sem boðuð er og var boðuð með fjárlögum 2018.

Ég spyr: (Forseti hringir.) Hvernig getur hv. þingmaður talað um að auka útgjöldin á sama tíma (Forseti hringir.) og enga ráðdeildarsemi í ljósi þessarar yfirferðar?