149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:42]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, báknið, hið tíðrædda bákn. Með fullri virðingu fyrir rafrænum þinglýsingum eða hætta að senda bréfpóst, það eru engir 300 milljarðar þar. Auðvitað má hagræða á ýmsum stöðum, ég átta mig alveg á því, en 300 milljarðar er ansi há upphæð. Það eru ekki margir mánuðir síðan landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði einmitt um þetta. Ég geri ráð fyrir að flestir þingmenn þess ágæta flokks hafi samþykkt það. Þannig að aftur kalla ég eftir skýrari svörum. Hvar ætlið þið að finna stóru tölurnar?

Hér nefnir hv. þingmaður líka að það er ýmislegt sem ríkið ætti ekki að standa í. Hvaða verkefni er það? Hún nefnir ÁTVR. Get ég fengið frekari skýringu á því, fleiri verkefni? Hvar dregur flokkurinn mörkin? Hvað á ríkið að gera og hvað ekki?

Nú er þessi flokkur nánast alltaf í ríkisstjórn, búinn að vera það síðan við fengum lýðveldið. Tækifærin eru ansi mörg til að bregðast við. Mér finnst oft Sjálfstæðismenn segja eitt hér og annað úti í samfélaginu. Það finnst mér svolítið sérkennilegt. Þið stærið ykkur af bólgnu fjárlagafrumvarpi sem þið teljið fullnægja flestum þörfum, en þegar þið yfirgefið þennan sal þá er komið að því að boða niðurskurð. Þetta er svolítið sérkennilegt.

Varðandi skattbyrðina. Það er áhugavert að hv. þingmaður talar um að hér eigi ekki að hækka skatta. Skattbyrðin hefur hins vegar aukist hjá einum hópi, það er rétt, það er hjá tekjulægsta hópnum. Það hefur gerst undanfarin ár. Af hverju gerist það? Það er vegna þess að persónuafslátturinn hefur m.a. setið eftir. Hann er núna 53 þús. kr., hann hefði verið 74 þús. kr. ef hann hefði fylgt launavísitölu. Síðan er búið að grafa undan bótaúrræðunum, þessum velferðarúrræðum eins og barnabótum og vaxtabótum sem einmitt „targeterar“ þá sem lægstar tekjurnar hafa. Þess vegna hefur skattbyrði hjá tekjulægsta hópnum og millitekjuhópnum verið að aukast.

Þegar Samfylking var síðast í ríkisstjórn þá settum við 100 milljarða kr. í vaxtabætur og barnabætur á kjörtímabilinu. Þá lækkaði skattbyrðin (Forseti hringir.) hjá tekjulægsta hópnum samkvæmt úttekt sem var gerð uppi í háskóla. (Forseti hringir.) Hér skiptir pólitíkin ansi miklu máli þegar kemur að skattbyrði og skatthlutfalli.