149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur. Hárrétt, við eigum að ræða hvað neytendur og skattgreiðendur fá fyrir þetta. En ég get ekki samþykkt að neytendur hafi ekki í neinu notið þess sem gert hefur verið, t.d. í mjólkinni, það er ósanngjarnt að slengja slíkri fullyrðingu fram. Ég hef heyrt önnur sjónarmið og menn verða að rökstyðja mál sitt betur en svo að bara fullyrða það og leggja ekki meiri rök inn í það. Þau rök sem færð hafa verið á móti þeirri fullyrðingu eru jafngild.

Þegar við tölum um samkeppnishluta í mjólkuriðnaðinum, sem er mjög umdeildur, geta þessi ákvæði vissulega verið með öðrum hætti en þau eru í dag, en engu að síður verður að horfa til þess að við erum þó búin að ná fram ákveðinni hagkvæmni með því sem þarna var gert. Það er einhver ástæða fyrir því að t.d. fjarskiptafyrirtæki hafa heimild í samkeppnislögum til þess að starfa saman. Getum við þá ekki gert þetta með sama hætti á þeim sviðum þegar við ræðum mjólkina? Ég ætla að nefna dæmi um það: Getum við ekki með sama hætti haft ákveðinn hátt á í sauðfjárræktinni til þess að greiða þar fyrir ákveðnum hlutum þannig að hagræðingin aukist og það skili sér til neytenda og framleiðenda? Ég held að það sé hægt. Það er kallað eftir því. Það kann vel að vera að við þurfum að breyta ákvæðunum eins og þau eru í samkeppnislögum í dag vegna þess að þau hafa greinilega skapað ákveðna tortryggni. Væntanlega er ekki sami skilningur á þeim alls staðar. Ég lýsi mig alveg reiðubúinn til þess að ræða það og vil það gjarnan.

Það sem ég er bara að nefna er að við þurfum í umræðunni um landbúnaðinn líka að halda því á lofti sem vel er gert. Ég fullyrði að það er fullt sem þar hefur verið gert, af því að við vorum að þrátta aðeins um mjólkuriðnaðinn, en þar er líka fullt af nýjungum sem hafa sprottið fram á síðustu árum.