149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:09]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og spurninguna. Við erum í umræðu þingsins um fjárlög árið 2019 og þótt það væri freistandi að fara að ræða hér um samgönguáætlun ætla ég að standast þá freistingu.

Ég er hins vegar sammála þingmanninum um vegaframkvæmdirnar og ég var glaður að heyra hann segja það hér í pontu vegna þess að ég hlustaði líka á þingmanninn fyrir stuttu síðan og þá var hann ekki á þeirri skoðun að hér hefði verið mikill gangur í vegaframkvæmdum á síðustu mánuðum. Ég er glaður að menn hafi áttað sig á því að þannig er það.

Ég er sammála þingmanninum um að það þarf verulega mikið til. Þegar kemur að samgönguáætlun munum við ræða hana, einstaka vegi og framkvæmdir, og hvort hún sé nægilega framsýn og hvort við séum að gera nægilega mikið á þeim tíma sem þar verður undir. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því að það er ekki hægt að gera allt í einu á hverjum stað.

Við sáum það á síðasta ári þegar við vorum að bjóða út framkvæmdir. Þá var ég hér að ræða tilteknar framkvæmdir í Hafnarfirði við hv. þm. Guðmund Inga Kristinsson, samflokksþingmann þingmannsins, við nákvæmlega sömu umræðu, fjárlög. Þá var ég að lýsa þeim framkvæmdum sem við ætluðum að gera á yfirstandandi ári. Þær voru boðnar út, en það bauð bara enginn í þær, það var það mikið að gera hér á höfuðborgarsvæðinu. Þó að við viljum gera mjög mikið verða auðvitað allir að vera tilbúnir að taka þátt í því.

Varðandi þá spurningu sem hér kom fram um endurnýjun réttinda þeirra sem hafa meirapróf rann það út 10. september. Ég held að langflestir séu búnir að fara í gegnum slíkt. Auðvitað ekki nærri allir. Ég hef allan tímann talið nauðsynlegt að fara yfir þetta verklag, hvernig við framkvæmum það, bæði er það verulega íþyngjandi (Forseti hringir.) að þurfa að sitja á námskeiði í marga daga, auk þess sem það er kostnaðarsamt. Ég tel að við þurfum að skoða þetta. (Forseti hringir.) Ég hef átt samtöl við þó nokkra aðila á síðustu vikum um þetta (Forseti hringir.) og við munum í ráðuneytinu skoða hvernig við framfylgjum þessu, (Forseti hringir.) en undan þessu varð ekki komist á sínum tíma.