149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

(Forseti (BN): Hæstv. ráðherra má koma nær áður en ég nefni nafnið.)

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir ágætar leiðbeiningar og met þær mikils. Það má segja að við séum að tala um þannig tölur og fjárhæðir að taka verður tillit til þeirra þegar við skoðum breytta stöðu.

Mér finnst mjög mikilvægt þegar við fjöllum um þetta að við gerum það af ákveðinni sanngirni. Við viljum ekki hafa markaðinn þannig að alltaf sé minna og minna rými fyrir sjálfstætt rekna fjölmiðla. Eitt leiðarljósið í þeim aðgerðum sem ég kynnti í vikunni snýr ekki bara að fjölmiðlum heldur líka því hvernig við ætlum að styðja við íslenskuna okkar. Við viljum hafa fjölbreytta flóru fjölmiðla sem land og samfélag þar sem við viljum hafa upplýsta og gagnrýna umræðu.

Ég lagði mikla áherslu á það þegar ég kynnti aðgerðirnar að þær væru í fjórum liðum, að við værum að fjalla um bækurnar, að við værum að fjalla um fjölmiðla — og tillögurnar varðandi fjölmiðla eru í sex liðum og lúta að einkareknum fjölmiðlum og skattalegu umhverfi þeirra. Ég vil minna á að við vorum að lækka virðisaukaskattinn á rafræna áskrift úr 24% í 11%. Það er einn liður í aðgerðunum. En eins og fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar viljum við bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla og við ætlum að gera það. Nú eru fram komnar tillögur sem við erum að fara að hrinda í framkvæmd og það er afar brýnt að þokkaleg sátt náist um þær í þinginu.