149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beindi þremur spurningum til mín og ætla ég að svara þeim í þeirri röð. Í fyrsta lagi um þennan beina stuðning sem bókaútgefendur eru að fá, 25% endurgreiðslan. Eftir að við fórum mjög vandlega yfir hvað væri árangursríkast þá varð þessi leið ofan á og hún er líka í samræmi við endurgreiðslur er varðar kvikmyndir og önnur þau endurgreiðslukerfi sem við erum með þannig að það er ákveðið samræmi og jafnræði í því.

Það er alveg ljóst að það verða engar bækur án höfunda og þessi aðgerð er auðvitað til þess fallin að auka bóksölu. Allt rekstrarumhverfi styrkist með þessari aðgerð sem við höfum aldrei gert áður og við munum fylgjast gaumgæfilega með því hvernig þróun verðlags verður. Um leið og verð á bókum lækkar þá erum við líklegri til þess að selja fleiri bækur og höfundar munu njóta góðs af því. Svo er það auðvitað bara þannig að öll velta í bókaútgáfu mun aukast með þessari innspýtingu en við munum fylgjast mjög vel með því og athuga hvort að þessi aðgerð muni ekki örugglega skila árangri.

Í öðru lagi eins og kom fram í framsögu minni þá erum við að auka talsvert í framlög til vísinda og rannsókna og ég þarf bara að fá frekari upplýsingar um það hversu nálægt þessum 3% við erum, ég held að við séum farin að nálgast það þokkalega. Varðandi OECD-meðaltalið þá settum við strax af stað vinnu eftir að ný ríkisstjórn var mynduð til þess að skoða þetta, fara yfir þessar tölur og athuga hversu langt væri í þetta. Ég var að fá það inn á borð til mín að við værum mun nær þessu markmiði en ég hafði gert mér áður grein fyrir og það er mjög ánægjulegt (Forseti hringir.) en ég er sammála hv. þingmanni að við eigum auðvitað að vera þarna og það er tími til kominn.