149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:38]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svar hennar og lýsi ánægju með það að hún virðist gera sér grein fyrir alvarleika þess vanda sem er hér við að eiga og þeim áherslum sem hún hefur lagt. Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja hana til dáða í þessum efnum. Það er eins og það liggi eitthvert farg yfir sérstaklega ungum mönnum, piltum, drengjum, sem leita verður sérstakra skýringa á hvað það er í okkar samfélagi sem veldur þessari vanlíðan. Það er ekki hægt að orða það með neinum öðrum hætti.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka ráðherra fyrir svar við fyrirspurn sem ég beindi til ráðherra á liðnu þingi og barst í sumar og varðar kennslubækur í framhaldsskólum. Ég tel afar brýnt að í framhaldsskólum hafi nemendur aðgang að kennsluefni á íslensku. Í framhaldsskólum eru fólki kynntar alls kyns námsgreinar og það er ágætt, en síðan kemur að því að fólkið velur sér grein í háskóla, þá þarf það náttúrlega að geta lesið á erlendu máli. En í framhaldsskólanum, þegar þannig stendur á að um kynningu er að ræða, yfirferð sem fólk hefur með sér út í lífið, er mjög mikilvægt að fólk hafi góðar kennslubækur á íslensku. Þetta er auðvitað líka þáttur í ræktun og verndun íslenskrar tungu í okkar samfélagi sem ég veit að ráðherra hefur mikinn áhuga fyrir.