149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:37]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Það á alltaf að hrósa fyrir það sem vel er gert. Hæstv. utanríkisráðherra leggur mikla áherslu á að styrkja EES-samstarfið og þess sér stað með auknum fjármunum í þann málaflokk. Hins vegar hef ég örlitlar áhyggjur af því hvort nóg sé að gert. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra deili áhyggjum mínum yfir því að sótt sé að EES-samningnum, m.a. af sumum hv. þingmönnum, og honum fundið flest til foráttu.

Í því samhengi langar mig að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort ekki sé rétt að forgangsraða enn betur í fjárframlögum til framkvæmdar EES-samningsins innan ráðuneytisins. Í öðru lagi: Hvernig líst honum á að efna til sérstakrar herferðar um þýðingu og ágæti EES-samningsins meðal landsmanna og verja til þess fjármunum? Þar væri t.d. hægt að fylgja fordæmi Norðmanna.

Loks vil ég hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa ákveðið að taka a.m.k. tíu mánuði, ef ég tók rétt eftir, til að fara yfir kosti og galla EES-samningsins í tilefni af skýrslubeiðni sem hér var lögð fram. Ég held reyndar að rétt hefði verið að taka til þess lengri tíma, en hvað um það.

Þá er rétt að bæta enn í hrósið vegna þess snilldarbragðs að fá víðsýnan og alþjóðlega sinnaðan mann til þess að leiða það starf og tryggja þannig að þar verði vel að verki staðið.

Ef vel á að standa að þeirri úttekt, sem ég er sannfærður um að hæstv. ráðherra vill, hef ég verulegar áhyggjur af fjármögnun hennar. Því spyr ég: Hver er áætlaður kostnaður við þá úttekt og hvar er gert ráð fyrir þeim kostnaði í frumvarpi til fjárlaga?