149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Þjóðkirkjan fær rúma 2 milljarða í fjárlagafrumvarpinu og rúmlega 2,5 milljarða í sóknargjöld. Ég er stuðningsmaður þjóðkirkjunnar, enda gegnir hún mikilvægu hlutverki í þjóðlífinu og viðheldur hinum trúarlega menningararfi þjóðarinnar. Ég er ekki kominn hingað til að ræða fjárveitingar til kirkjunnar með beinum hætti, enda byggjast þær að stórum hluta á svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi sem ég tel að beri að virða.

Það sem ég vildi hins vegar sagt hafa varðandi kirkjuna í þessari umræðu og við hæstv. dómsmálaráðherra og yfirmann kirkjumála eru fréttir sem birst hafa um ýmis málaferli sem kirkjan hefur staðið í í gegnum árin. Málaferli kosta peninga og það er staðreynd að kirkjan hefur tapað mörgum af þeim málum. Ég tel að kirkjan eigi að leggja sig alla fram um að ná sáttum, það er í anda þess sem kirkjan stendur fyrir og boðar.

Verst þykir mér þegar kirkjan brýtur á réttindum eigin starfsmanna. Nýlega sá ég t.d. að kirkjan hefur áfrýjað máli sem hún tapaði í héraði gegn presti vegna starfskjara hans. Í því máli var tekið fram af hálfu dómsins að biskup hefði brotið gegn ákvæðum laga við ákvörðun sína í málinu. Ég hefði fremur viljað sjá að þeim peningum sem kirkjan hefur varið í málaferli yrði varið til uppbyggingar kirkjustarfinu. Það sem mig langar að vita er hvort hæstv. dómsmálaráðherra hafi rætt þau mál við biskup. Eins og ég nefndi fyrr kosta málaferli alltaf peninga og þau ber að forðast ef mögulegt er, ekki síst ef þau beinast gegn vígðum þjónum kirkjunnar. Kirkjan á að vera til fyrirmyndar í þessu sem öðru. Almennt vil ég segja að fréttir undanfarin ár um ýmsar stjórnsýslulegar ákvarðanir innan kirkjunnar gefa tilefni til að spyrja ráðherra með hvaða hætti er haft eftirlit með stjórnsýslu (Forseti hringir.) stofnana á vegum ráðuneytisins og hvaða ráð hæstv. ráðherra sjái til úrbóta í þeim efnum.