149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Þá svarar hæstv. ráðherra. Ég heyrði hins vegar undir lok andsvars hv. þingmanns að hann ætlaði að koma að spurningunni í næsta andsvari en ég greindi enga spurningu sérstaklega í þessu andsvari.

En það er rétt sem hv. þingmaður segir — og ég þakka fyrir að fá tækifæri til að árétta að það skiptir máli að menn beri saman réttar eða sambærilegar tölur, hvort heldur er á milli ára eða á milli verkefna, af því að löggæsla, ég rak mig á það þegar ég fór að skoða þennan málaflokk aftur í tímann — að kafa þarf svolítið djúpt til þess að átta sig á því hvaða fjárhæðum hefur verið varið til löggæslumála síðustu árin þegar löggæslan var úti um landið, t.d. hjá sýslumönnum. Þær tölur eru til og þess vegna lagði ég mikla áherslu á að særa þær fram og kynnti þær á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins í ágætu yfirliti þar sem menn geta séð heildarútgjöld til löggæslumála eins og þau hafa verið á árunum áður en sýslumannsembættin voru slitin frá lögreglunni. Þar sést glöggt að aukning fjárheimilda hefur öll orðið, og veruleg, á árunum eftir 2014. Á árunum frá og með 2014 varð veruleg aukning fjárheimilda til löggæslunnar. Þótt maður geti haft gaman af góðum þrætum finnst mér heldur tilgangslítið að þræta um þá staðreynd.

Embættin úti um landið skiptast auðvitað eftir þörfum og áherslum á hverjum tíma. Farið verður í sérstakt átak vegna löggæslumála í kjölfar fordæmalausrar aukningar ferðamanna. Þá var litið sérstaklega til Suðurlands og höfuðborgarsvæðisins og hálendisins, þannig að þetta fer (Forseti hringir.) allt eftir efnum og ástæðum á hverjum tíma.