149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:35]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágætt svar. Ég vil benda á að það er auðvitað hægt að nálgast viðfangsefnið með ýmsum hætti. Ég hef haft tilhneigingu til þess að horfa á þetta svona: Ríkissjóður mun hafa í kringum 186 milljarða kr. í tekjur af tekjuskatti einstaklinga. Kostnaður eða útgjöld eða framlög ríkissjóðs til almannatryggingakerfisins og til annarra bótagreiðslna, barnabóta, húsnæðisstuðnings o.s.frv. er svipuð upphæð. Þá segi ég: Þetta eru 350–400 milljarðar sem við erum að horfa á, þetta er auðvitað tekjumegin og hins vegar gjaldamegin, þetta eru samt 350 og upp undir 400 milljarðar.

Þá segi ég: Það hlýtur að vera þannig að við getum sniðið tekjuskattskerfið með þeim hætti að við tökum stóran hluta t.d. af almannatryggingakerfi og allt bótakerfið, allar barnabætur og vaxtabætur, inn í tekjuskattskerfið. Ég hef sjálfur bent á og er ekki upphafsmaður þeirrar umræðu að það eigi að innleiða hér stiglækkandi persónuafslátt, hann eigi að vera mjög hár og síðan eigi hann að lækka og hverfa við einhverjar ákveðnar tekjur, milljón eða 1,2 milljónir eða hvar sem menn vilja hafa það. Það mun leiða til þess að (Forseti hringir.) kerfið verður miklu hagkvæmara fyrir láglaunamenn.

Við höfum líka séð að þegar menn eru t.d. að hækka persónuafsláttinn (Forseti hringir.) sem gengur upp allan stigann er ekki verið að nýta fjármuni sem annars ættu (Forseti hringir.) kannski að nýtast til þess að koma til móts við þá sem lægri tekjur hafa.