149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:18]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Málefnasviðin eru þrjú sem heyra undir umhverfis- og auðlindaráðherra að öllu eða einhverju leyti. Starfsemi málefnasviðs 17 er þar umfangsmest. Þá tilheyrir starfsemi Landmælinga Íslands á málefnasviði 6 ráðuneytinu sem og verkefni Skipulagssjóðs á málefnasviði 8.

Í því fjárlagafrumvarpi sem nú er til umræðu eru heildargjöld til málefnasviðs 17, umhverfismála, áætluð rúmir 19,5 milljarðar kr. og aukast um rúman 1,5 milljarða kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2018. Það samsvarar um 8,8% raunaukningu. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum, sem áætlaðar eru 528 milljónir kr., nemur hækkunin rúmum 2 milljörðum kr., 11,8%.

Gert er ráð fyrir niðurfellingu tímabundinna framlaga til málefnasviðsins sem nema um 517 millj. kr., þar af 325 milljónir vegna tímabundinna fjárfestingarframlaga til byggingar gestastofa þjóðgarða, 147 millj. kr. vegna Sóknaráætlunar í loftslagsmálum 2016–2018, sem rennur sitt skeið í lok þessa árs, og 44,8 millj. kr. tímabundin fjárveiting til náttúrustofa. Gerðar verða ráðstafanir til að lækka útgjöld á málefnasviðinu um 126 millj. kr. í samræmi við markmið í gildandi fjármálaáætlun, svokölluð aðhaldskrafa.

Bundin útgjöld nema alls 850 millj. kr. Ég vil vekja athygli á því að í frumvarpinu er misritun þar sem talað er um að þyngst vegi gjaldaaukning vegna breytinga á áætluðum sértekjum ríkisaðila. Þessi tala á að vera 782,2 millj. kr. vegna vanáætlunar í fyrri fjárlögum en aukningin hefur þó ekki áhrif á greiðslur úr ríkissjóði. Raunaukning þessa liðar nemur því 67,9 millj. kr.

Gert er ráð fyrir að útgjaldasvigrúm innan ramma málefnasviðsins aukist um 1.320 millj. kr. og er það fyrst og fremst veitt í ný og aukin verkefni vegna loftslagsmála, til styrkingar innviða á náttúruverndarsvæðum og til landvörslu. Þessi megináhersla endurspeglar þær áskoranir í loftslagsmálum og náttúruvernd sem við stöndum frammi fyrir.

Fyrr í þessari viku var fyrsta útgáfa aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum kynnt. Eins og fram kom af því tilefni er ráðgert að veita 6,8 milljarða kr. á næstu fimm árum til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum. Alls er gert ráð fyrir því að 600 millj. kr. verði varið til þessa verkefnis strax á næsta ári, þar af um 255 millj. kr. til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, 250 millj. kr. til kolefnisbindingarverkefna og 60 millj. kr. í nýsköpun í gegnum sérstakan loftslagssjóð. Jafnframt er gert ráð fyrir um 35 millj. kr. af þessum 600 vegna starfsemi loftslagsráðs, eflingar stjórnsýslunnar og innleiðingar þaktilskipunar Evrópusambandsins.

Eins og fleiri en ég hafa bent á er ekki spurning hvort við eigum að ráðast í aðgerðir vegna loftslagsbreytinga heldur erum við skuldbundin til þess, bæði gagnvart alþjóðasamfélaginu en ekki síður gagnvart komandi kynslóðum.

Hæstv. forseti. Ég hef látið eftir mér hafa að náttúra Íslands sé gulleggið okkar. Hana þurfum við að vernda og virða og jafnframt tryggja að við göngum ekki á gæði hennar. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að 7,5 milljörðum kr. verði varið í aðgerðir til verndar náttúrunni á næstu fimm árum. Með þessu fjárlagafrumvarpi er lagt til að 0,5 milljörðum kr. verði varið á næsta ári til þessara brýnu verkefna og 200 millj. kr. til landvörslu.

Af þessum 0,5 milljörðum er gert ráð fyrir að 350 milljónir fari til uppbyggingar innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Verður fjármununum útdeilt á grundvelli landsáætlunar þar um og verkefnaáætlun 2018–2020, sem kynnt var í mars sl., uppfærð með tilliti til þessa aukna fjármagns. Það mun þýða að rúmur 1 milljarður kr. mun fara til þessa brýna verkefnis þar sem Alþingi hefur áður tryggt 660 millj. kr. til verkefnisins.

Þá er ráðgert að efla rannsóknir og vöktun á náttúruverndarsvæðum með 80 millj. kr. fjárframlagi og starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs, sem dekkar um 15% landsins, styrkt með 40 millj. kr. framlagi til að mæta auknu álagi á náttúruna vegna ferðamanna.

Umsjón með náttúruverndarsvæðum verður efld með 200 millj. kr. framlagi vegna landvörslu, bæði heilsárs- og árstíðabundinnar, á næsta ári. Ég vil einnig láta hér fylgja að á árinu 2020 er gert ráð fyrir að 300 millj. kr. bætist við árlega vegna landvörslu á landinu öllu, sem hluti af því 7,5 milljarða kr. framlagi sem verja á til aukinna verkefna tengdum náttúruvernd svo tryggja megi verndun náttúrunnar og sjálfbæra nýtingu hennar.