149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:33]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið. Það er þannig að kolefnisgjaldi er fyrst og fremst ætlað að reyna að breyta venjum og hvetja til þess að einstaklingar og aðrir aðilar fari meira út í umhverfisvænni fararmáta.

Það sem ég vil segja um útlosun sem kemur frá náttúrulegum ferlum, eins og hv. þingmaður nefndi hérna varðandi Kötlu, hefur það kannski ekki mikið með kolefnisjöfnunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar að gera, einfaldlega vegna þess að það verður útlosun á gróðurhúsalofttegundum frá mjög mörgum náttúrulegum ferlum sem við getum í rauninni ekki svo auðveldlega stýrt, eins og gefur að skilja. Þær jöfnunaraðgerðir eða sú kolefnisjöfnun sem við erum að ráðast í beinist náttúrlega að þeim þáttum sem hafa með útlosun frá manninum sjálfum að gera. Það er kannski ákveðinn munur þar á. Ég tel að kolefnisgjaldið sé mjög mikilvægt til þess að hvetja til breyttra hátta þegar kemur að því hvaða fararmáta við nýtum okkur. En ég get tekið undir það með hv. þingmanni að mikilvægt er að bæta rannsóknir um hverju það skilar nákvæmlega og það á við um margar aðrar aðgerðir. Það er ekki ómögulegt að gera þetta að öllu leyti, en það er erfitt og er að sjálfsögðu til skoðunar.