149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:33]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmanninum kærlega fyrir innleggið og ég get tekið undir mjög margt af því sem þingmaðurinn setur þar fram.

Ég er þeirrar skoðunar varðandi samgöngumálin, og deili henni með þingmanninum, að borgarlínan sé mjög áhugavert og spennandi verkefni. Koma þarf á frekari umræðu á milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um hana og verður mjög spennandi að sjá hvernig við getum unnið í sameiningu að því máli. Það þarf kannski ekki að brýna mig á þeim vettvangi, ég mun að sjálfsögðu taka þátt í því.

Síðan er það þetta ágæta innlegg varðandi mótvægisaðgerðirnar. Í fyrsta lagi eru þetta allt mótvægisaðgerðir. Sumar beinast meira beint að beinum skuldbindingum Íslands vegna Parísarsamkomulagsins. Það gera þær mótvægisaðgerðir sem hafa með kolefnisbindingu að gera vissulega í minna mæli, við munum ekki geta teflt þeim eins mikið fram gagnvart Parísarsamningnum og menn höfðu gert sér vonir um. Það er talað um að þetta gætu kannski verið 1–2% í aðgerðaáætluninni hjá okkur, en ekki eins mikið og búist var við. Það breytir ekki þeirri staðreynd að aðgerðirnar sem slíkar nýtast loftslaginu. Því megum við aldrei gleyma. Það að draga úr útlosun frá votlendi nýtist loftslaginu eins mikið og það að draga úr mengun frá olíu þó að áherslan sé mjög mikil þar.

Svo ég fari nú ekki yfir tímamörkin ætla ég að taka undir það með þingmanninum að ég held að við þurfum að skoða í framhaldinu hvaða grænu tekjumöguleika og hvaða grænu fjárfestingar — ég veit að þingmaðurinn hefur áður komið inn á það — við gætum mögulega séð fram á og (Forseti hringir.) við þurfum líka að skoða neyslu og aðra þætti sem ég veit að við þingmaðurinn deilum skoðun á.