149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil alveg hvað hv. þingmaður er að fara. Það er samt spurning hversu langt við eigum að ganga í niðurbroti á viðbótarútgjöldum þegar okkur tekst ekki nægilega vel að fara reglulega yfir hin útgjöldin. Við getum tekið sem dæmi að við erum hér með hátt í 900 milljarða útgjöld og viðbótarútgjöldin nema rúmum 50 milljörðum. Ef við tökum heildarviðbótina og tökum launaliðinn frá og skoðum bara það sem er að fara til frumútgjalda án launaliðar þá hleypur það á bilinu 30 til 40 milljarðar. Vissulega er mikilvægt að fara vel ofan í það hvaða kostnaðarmat liggur þar að baki. Yfirleitt er það nokkuð ljóst, svo að dæmi sé tekið um vegamálin, að ef menn ætla að bæta 4,5 milljörðum í viðhald í vegum þá er spurning hversu langt við eigum að ganga í að brjóta það niður eftir einstaka vegum, kostnaðarmatið á hvern veg o.s.frv. Við settum rúma 4 milljarða í S-merkt lyf á þessu ári, hversu langt eigum við að fara í niðurbrot á kostnaðarmati vegna þeirra lyfja? Ég held að við verðum að finna eitthvert jafnvægi á milli þess að vinna þá vinnu og hinnar vinnunnar sem er að skoða betur heildarþróunina og hvort ekki séu leiðir til að ná fram meiri sparnaði, auknu hagræði, meiri framleiðni í opinbera rekstrinum, t.d. með því að taka í gagnið nýja tækni, samanber það sem dómsmálaráðherra er að kynna til sögunnar núna við rafrænar þinglýsingar.