149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

nýting fjármuna heilbrigðiskerfisins.

[15:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég held að það sé til einfalt svar við þessari spurningu. Ég mun beita mér fyrir því. Við öll í ríkisstjórninni munum beita okkur fyrir því. Heilbrigðisráðherrann er að beita sér fyrir því að stytta biðlista, að tryggja betri heilbrigðisþjónustu.

Við erum að auka fjármögnun kerfisins en það er hins vegar mín skoðun, svo ég reyni að þrengja svarið aðeins, að við þurfum að hafa betri stjórn á kaupum á heilbrigðisþjónustu í landinu, bæði hjá hinu opinbera, þ.e. opinbert reknum heilbrigðisstofnunum, en líka hjá einkaaðilum.

Ég held að það eigi að vera okkur til umhugsunar þegar við erum að hugsa um einkaframtakið í heilbrigðisþjónustu að við erum á ákveðnum sviðum að kaupa margfalt meira af tiltekinni þjónustu, tökum sem dæmi hálskirtlatökum, en þekkist annars staðar. Það er einhver bjögun þar. Á sama tíma er ég sannfærður um að við munum ekki ná árangri í að stytta biðlista og tryggja hámarksgæði þjónustunnar og þar með talið nýtingu fjármagnsins nema við finnum rétta jafnvægið í samspili grunnheilbrigðisþjónustu hjá hinu opinbera (Forseti hringir.) og síðan hlutverki einkageirans til hliðar við það. Við munum öll beita okkur fyrir því að þetta þokist í rétta átt.