149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[15:49]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það er alkunna að ekki hefur tekist að tryggja að allir landsmenn sitji við sama borð þegar kemur að aðgangi að raforku. Þannig búa Vestfirðir við óásættanlegt orkuóöryggi auk þess sem flutningi á raforku til Eyjafjarðarsvæðisins er verulega ábótavant. Þetta ástand hefur verið viðvarandi um nokkurt skeið. Það er augljóst að gera þarf bragarbót á ef sá samfélagssáttmáli á að standa sem hér hefur ríkt, að við viljum halda úti byggð um land allt og að byggðirnar geti þrifist og dafnað á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt.

Það er ljóst af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að vilji er til að gera betur og talað er um að flutnings- og dreifikerfi raforku verði að mæta betur þörfum atvinnulífs og almennings alls staðar á landinu. Hér er nefnilega um mikla misskiptingu raforkugæða að ræða eftir landsvæðum.

Í ágúst síðastliðnum bilaði aflspennir í rafstöðinni í Hveragerði með þeim afleiðingum að rafmagnslaust var í bænum, eins og margir muna eflaust. Við það tækifæri sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins og jafnframt markaðsstjóri Kjöríss, sem er eitt stærsta fyrirtækið í Hveragerði, að þetta væri nær einstakt tilvik þar á bæ, en að margir félagsmanna hennar hjá Samtökum iðnaðarins úti á landi, t.d. á Eyjafjarðarsvæðinu og Vestfjörðum, byggju við nánast viðvarandi rafmangsskort og skerðingar og gætu ekki stækkað fyrirtæki sín eða aukið reksturinn vegna skorts á rafmagni.

Svo ég haldi áfram á sömu nótum er í skýrslu Samtaka iðnaðarins um innviði frá haustinu 2017 jafnframt sagt um málið að dreifikerfið í þéttbýli sé í góðu ástandi, en í dreifbýlinu þurfi að byggja kerfið upp frekar til að hægt sé að afhenda þriggja fasa rafmagn alls staðar sem er grundvöllur þess að meðalstór og stærri fyrirtæki geti þrifist.

Staðan er sem sagt sú að það eru verulegar takmarkanir í flutningskerfi raforku hér á landi og á vissum stöðum getur kerfið ekki annað auknum flutningi og því er ekki hægt að verða við óskum notenda um aukna notkun. Auk þess getur þurft að skerða núverandi notendur á álagstíma á sumum landsvæðum. Það eru dæmi um að þetta ástand, þessar takmarkanir, hafi komið í veg fyrir atvinnuþróun þar sem fyrirtæki annars í góðum lofandi rekstri geta ekki stækkað og þróast vegna skorts á raforku.

Þótt eðlilega sé lögð áhersla á áhrif þessarar stöðu á fyrirtæki og atvinnulíf á þessum svæðum þá finna heimilin þarna líka fyrir þessu, fyrir rafmagnsleysi almennt og spennuflökti sem skemmir raftæki og þess háttar.

Herra forseti. Aðgerðaáætlun um loftslagsmál var kynnt fyrr í þessum mánuði. Meðal mikilvægra aðgerða sem þar voru kynntar má nefna aukna hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í skipum og síðan rafvæðingu hafna. Þetta eru mikilvæg skref í að ná þessum settu markmiðum, en það er jafnframt ljóst að það verður áskorun að ná þeim á þeim landsvæðum sem hér um ræðir miðað við núverandi raforkuframboð.

Því spyr ég hæstv. ráðherra í fyrsta lagi:

Á fundi ríkisstjórnar þann 19. janúar síðastliðinn var samþykkt tillaga hæstv. ráðherra um að skipaður yrði starfshópur til að vinna að langtíma orkustefnu í samræmi við stjórnarsáttmála sem er gott og vel. Spurningin er: Hvaða áætlun aðra en þessa langtímaáætlun styðst ríkisstjórnin við til að jafna aðgang landsvæða á borð við Vestfirði og Eyjafjörð að raforku? Hvenær geta íbúar þessara svæða búist við úrlausn mála?

Í öðru lagi spyr ég:

Á svæðum þar sem afhendingaröryggi rafmagns er lítið er umfang dísilknúins rafmagns meira en á öðrum svæðum. Er það ásættanlegt að mati ráðherra að í landi sem býr yfir jafn hreinni orku og Ísland gerir séu fyrirtæki sem eru tilneydd til að keyra á svokallaðri óhreinni orku ef þau vilja á annað borð starfa, byggja upp starfsemi sína á Vestfjörðum eða við Eyjafjörð?

Í þriðja lagi, herra forseti, langar mig hér í lokin að beina sjónum að Hvalárvirkjun.

Hugmyndir um virkjun Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum eru orðnar nær 100 ára gamlar. En í ljósi þess hita sem verið hefur í umræðunni síðustu vikur, síðustu mánuði, er mikilvægt í tengslum við umræðuna um raforkumál á Vestfjörðum að fá svör frá hæstv. ráðherra við því hvort hún telji Hvalárvirkjun ákjósanlegustu leiðina til að auka afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum. Ef svo er, mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að sú leið verði farin? Er samstaða innan ríkisstjórnarinnar um þá vegferð sem segja má að löggjöfin hafi sett málið í með því að setja virkjunina í rammaáætlun eða nýtingarflokk þegar rammaáætlun var samþykkt árið 2013?