149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[16:05]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það tækifæri að geta rætt hér enn einu sinni raforkumál. Það er þarft að við ræðum það nánast daglega. Hæstv. ráðherra kom inn á stefnu stjórnvalda og mig langar aðeins að höggva í þann knérunn af því að hér er spurt margra ágætra spurninga sem tengjast mörgu sem stjórnvöld eru að gera og hyggjast gera.

Einhverjum þessara spurninga er svarað í stjórnarsáttmálanum sjálfum þar sem segir, með leyfi forseta:

„Forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar verður að nýta með sem hagkvæmustum hætti þá orku sem þegar hefur verið virkjuð. Í þeim tilgangi þarf að treysta betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt. Skoðað verði að hve miklu leyti má nýta jarðstrengi í þessar tengingar með hagkvæmum hætti. Ekki verður ráðist í línulagnir yfir hálendið.“

Hér er komið inn á marga þá þætti sem fyrirspyrjandi kemur inn á í sinni fyrirspurn og hæstv. ráðherra kom aðeins inn á það í sínu máli einnig að í hv. atvinnuveganefnd náðist mikill samhljómur um það að kveða enn fastar að orði. Lykilsvæðin voru þar skilgreind, það var sérstaklega tekið fram og gerð breytingartillaga um að bæta við að Eyjafjarðarsvæði, Vestfirðir og Suðurnes skyldu sett í forgang. Mikil áhersla var lögð á að það yrði akkúrat hugað að raforkumálum á þessum svæðum sem fyrirspyrjandi kom sérstaklega inn á í sinni fyrirspurn.

Eins og kemur fram í þeim orðum sem ég vitnaði til í stjórnarsáttmálanum er það betri nýting á þeirri orku sem þegar hefur verið virkjuð sem er í forgangi hjá þessari ríkisstjórn. Það má horfa á Vestfirði sérstaklega hvað það varðar. Spurt er hvernig best sé að tryggja orkuöryggi þar. Þar má nefna sérstaklega það að setja valda kafla af línu í jörð og hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir hvað Landsnet væri með á prjónunum þar sem verstu veðrin eru. Ég nefni Dýrafjarðargöng, sæstreng undir Arnarfjörð og fleira. (Forseti hringir.) Við þurfum sem sagt að nýta betur og dreifa betur þeirri orku sem þegar hefur verið virkjuð.