149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[16:09]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson, fyrir að vekja athygli á þessum mikilvæga málaflokki. Áreiðanleiki raforku í kerfi Landsnets er minnstur á Vestfjörðum. Í innleggi Landsnets í skýrslu starfshópsins til ráðherra frá árinu 2012 segir eftirfarandi um afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum:

„Landsnet mun áfram vinna að greiningu kosta til bættrar raforkuafhendingar á Vestfjörðum.“

Síðan eru liðin mörg ár. Þó að kannski sé unnið að einhverjum hugmyndum hefur ekkert mikið gerst annað. En miklar umræður hafa verið um hvort Hvalárvirkjun sé lausnin til að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Virkjun Hvalár ein og sér kemur ekki til með að auka raforkuöryggið heldur veltur á því hvernig hún verður tengd, eins og fram hefur komið hér. Það skiptir því miklu máli að jafnhliða þessum virkjunarkosti sé unnið áfram að þeim málefnum, þ.e. tengingum og flutningsleiðum. Tengipunktur í Ísafjarðardjúpi og þaðan inn í Mjólkárlínu er forsenda fyrir því að virkjunin hjálpi til með raforkuöryggi. Eins og nú er er flutningsleiðin bara Vesturlínan sem liggur um fjallvegi á einu erfiðasta svæði landsins veðurfarslega. Auk þess eru virkjunarmöguleikar í Ísafjarðardjúpi sem myndu tryggja öryggið og möguleika líka á hringtengingu.

En nýr tengipunktur er ekki kominn inn á framkvæmdaáætlun Landsnets og því er óvissan enn þá fyrir hendi. Atvinnuþróun á Vestfjörðum og líka á Eyjafjarðarsvæðinu líður fyrir hversu ótrygg raforkan er í raun og veru á þessum svæðum. Það gerir landsvæðin ekki eins samkeppnishæf hvað varðar uppbyggingu bæði í atvinnu og búsetu. Á árinu 2015 var samfélagslegur kostnaður vegna ótryggrar (Forseti hringir.) raforku á Vestfjörðum metinn á rúmlega hálfan milljarð. Ég kem að öðru í næstu ræðu.