149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[16:12]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Frú forseti. Hv. málshefjandi víkur að afhendingaröryggi og getur sérstaklega um Hvalárvirkjun í sínu uppleggi fyrir þessa umræðu. Þetta gefur tilefni til að ræða stuttlega hvaða ávinningur kann að vera af umræddri virkjun þegar kemur að afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum sem auðvitað allir eru sammála um að þurfi að tryggja. Ítarlega er fjallað um þetta efni í grein Snorra Baldurssonar, fyrrverandi formanns Landverndar, í Kjarnanum 15. september 2016, en greinina nefnir höfundur „Hvalárvirkjun á Ströndum: Ríkisstyrkur til einkaaðila“.

Niðurstaða höfundar er að Hvalárvirkjun og tenging hennar við Geiradal, hvort sem farið er beina leið eða um tengivirki á Nauteyri við Ísafjarðardjúp, muni aðeins leysa 5–10% af þeim rafmagnstruflunum sem kvartað er yfir. Er sú niðurstaða fengin á grundvelli skýrslu Landsnets frá árinu 2009 sem ber yfirskriftina Bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.

Höfundur spyr einnig hvort eitthvað sé unnið fyrir Vestfirðinga með tengingu frá Hvalá að Geiradal um Nauteyri við Ísafjarðardjúp. Niðurstaða höfundar með vísan til áður tilvitnaðrar skýrslu er að Hvalárvirkjun og tenging hennar við Geiradal, hvort sem farið er beina leið eða um tengivirki á Nauteyri við Ísafjarðardjúp, muni aðeins leysa um 5–10% af þeim rafmagnstruflunum sem kvartað er yfir.

Hvalárvirkjun er m.a. réttlætt með því að hún auki afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Sú fullyrðing virðist ekki standast. Til hvers er þá verið að fórna ósnortnum víðernum hálendis á Vestfjörðum, dýrmætum náttúrugersemum sem okkur hefur tímabundið verið trúað fyrir og gætu reynst drjúg auðlind í ferðaþjónustunni?