149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[16:19]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf):

Forseti. Ágætu þingmenn. Við erum auðvitað lítið land og eigum að njóta sameiginlegra auðlinda okkar. Fyrir mig sem íbúa á Vestfjörðum þá skiptir raforkuöryggi gríðarlega miklu máli. Við þurfum að fá línurnar vestur og við þurfum að fá þessa hringtengingu. Hvaðan orkan kemur er ekki endilega stærsta málið, við þurfum bara að fá þessar línur.

Varðandi tengipunkt í Ísafjarðardjúpi eins og hér hefur verið nefndur, þá snýst hann ekki bara um að tengja Hvalá, þótt Hvalá sé stærsta virkjunin. Það eru þarna aðrar virkjanir, Austurgilsvirkjun og Skúfnavatnavirkjun sem eru minni virkjanir sem vitað er að myndu líka fara inn á þetta tengivirki. En við erum auðvitað enn að bíða eftir ákvörðun um staðsetningu þessa tengipunktar. Það var 1. september árið 2016 sem þáverandi ráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, boðaði að ákvörðunar væri að vænta í næstu viku. Þessi næsta vika er kannski ekki enn komin.

Ef ég man rétt og ráðherra kannski leiðréttir mig þá stendur það í kerfisáætlun að þetta sé verkefni í vinnslu, það sé ekki enn þá komin ákvörðun. Hún leiðréttir mig ef ég fer ekki alveg rétt með, þetta er eftir minni.

Þessi tengipunktur skiptir gríðarlega miklu máli. Þar er ég algjörlega ósammála hv. þingmanni sem talaði hér áðan um að hann skipti ekki máli, hann gerir það. Það skapar alveg gríðarleg tækifæri fyrir vestfirskt atvinnulíf að fá hringtengingu og þennan tengipunkt.

Það er nefnilega algjör frumforsenda nútímasamfélags að flutningskerfi raforku virki. Í rauninni má segja að það séu algjör grundvallarmannréttindi að hafa aðgang að raforku. Ef við getum ekki flutt orkuna á milli svæða er raunveruleikinn sá að við getum neyðst til að velja óhagstæðari raforkukosti, óhagstæðari virkjanir, einfaldlega vegna þess að flutningskerfið virkar ekki eins og það á að gera.

Sú staða sem við erum í er auðvitað afleit, að berjast fyrir grænum áherslum með annarri hendinni og neyða menn svo til að framleiða rafmagn með olíukötlum með hinni hendinni eins og við gerum t.d. á Vestfjörðum.