149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[16:30]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Frú forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson, fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli. Þegar ég var að alast upp þótti ekki tiltökumál þó að rafmagnið færi af. Það gerðist oft í kringum jólin og á aðfangadag að maður hugsaði hvenær rafmagnið skyldi fara af. Hvað náum við langt með steikina áður en það slær út? Svo leið þetta hjá og heyrði sögunni til þangað til ég flutti til Vestmannaeyja 1998, þá tók þessi veruleiki aftur við. Það þótti ekkert tiltökumál þó að rafmagnið færi af. Það var eðlilegur þáttur í tilverunni að það slægi út af og til. Þetta varð til þess að endingartími heimilistækja varð afskaplega bágur á þessum stað á landinu. Ég held að ég hafi á þessum 16 árum farið í alla vega eina hringferð, jafnvel tvær, með öll heimilistækin sem ég þurfti að endurnýja. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt mál.

Ég vil tala um sérstakt áhugamál, þ.e. að horfa til allra átta og benda t.d. á vindorkuna, sem er ónýtt auðlind hér á landi, og sjávarfallaorku, sem er það einnig, og hvetja hæstv. ráðherra til að útbúa lagaramma varðandi þessa orkunýtingu sem ég er viss um að muni aukast í næstu framtíð.

Ég vil nota tíma minn rétt áður en ég klára til að benda á mikilvægi þriggja fasa rafmagns út í sveitir landsins. Það er ekki boðlegt að notendur rafmagns sem vilja fara út í einhverja örlítið stærri framleiðslu en hefðbundinn búskap hafi ekki aðgang að þriggja fasa rafmagni nema fyrir stórfé. Það verður auðvitað að setja stefnu í þessu (Forseti hringir.) máli þannig að allir landsmenn geti notið þess og stundað einhvern iðnað.