149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

orkuöryggi þjóðarinnar.

[16:35]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Ég veit ekki hvort ég heyrði rétt, að hv. þm. Sigurður Páll Jónsson spurði hvort hæstv. ráðherra þekkti muninn á einfasa- og þriggjafasarafmagni. Ef það var spurningin er svarið: Já, að sjálfsögðu veit ég muninn á eins fasa og þriggja fasa rafmagni, enda hef ég verið ráðherra í tæp tvö ár og starfað með nokkra hatta á þingi í hálfan áratug.

Fyrst varðandi samfélagssáttmálann sem hv. þingmaður kom inn á í fyrri ræðu er það kannski það sem mér finnst sitja eftir og ég vona að við séum einhvern veginn svolítið flest sammála um, og ég held að fleiri og fleiri verði sammála í orði, að við getum ekki talað um raunverulegt frelsi til búsetu á meðan grunninnviðir eru með svo mismunandi hætti um landið að það eru einfaldlega ekki sömu tækifærin. Fólk fær góða hugmynd, ætlar að stofna fyrirtæki og það kallar á einhverja innviði sem við öll segjum að allir eigi að hafa en ef það eru svæði sem hafa þá ekki er erfiðara fyrir það fólk að festa rætur þar, á sama tíma og við segjum að við viljum að allir hafi raunverulegt frelsi til búsetu.

Af því að hér var auðvitað rætt sérstaklega um Eyjafjörð og Vestfirði er staðan á Vestfjörðum óásættanleg. Það er þannig og það er auðvitað þess vegna sem við erum að vinna þessa vinnu.

Það er rétt sem hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson kemur inn á, þetta er stórt verkefni og ég er sammála um að það þurfi að horfa til lengri tíma en líka skemmri. Við getum ekki bara markað langtímasýn vegna þess að staðan er núna og fólk býr þarna núna. Oft togast þetta síðan á, en við þurfum einhvern veginn að reyna að finna eitthvert jafnvægi í því.

Mér finnst umræðan hafa breyst undanfarið kannski eina og hálfa árið. Varðandi stjórnarsáttmálann er enginn að hlaupa frá honum. Hann er skýr hvað varðar það að treysta flutningskerfi raforku og ég fagna því að allir hafi kvittað upp á þann stjórnarsáttmála og að við vinnum eftir honum.

Varðandi tengipunktinn er það ekki ákvörðun ráðherra. Varðandi þriggja fasa rafmagnið er ég sammála, það er mikilvægt og þess vegna skipaði ég hóp (Forseti hringir.) í fyrra undir forystu hv. þm. Haralds Benediktssonar til að reyna að finna út úr því hvort við getum einhvern veginn stokkað upp þessa áætlun eða gert þetta með einhverjum öðrum hætti vegna þess að það er ekki ásættanlegt að segja við fólk að það fái þrífösun rafmagns árið 2034 eða 2036. Áætlanir Rariks núna segja að það kosti 10 milljarða. Það eru heilmiklir fjármunir og þess vegna þurfum við að vera óhrædd við að skoða það einhvern veginn öðruvísi.