149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[16:38]
Horfa

Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingmáli sem að mínu mati myndi setja Ísland á verðugan stall þegar kemur að réttindamálum fatlaðra. Með lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður Ísland eitt af fáum ríkjum heims sem hafa gert slíkt, ef ekki það eina. Þingsályktunartillagan lýtur að því að fela ríkisstjórninni að undirbúa lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Frumvarp sem feli í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum verði lagt fram á Alþingi með það að markmiði að samningurinn verði lögfestur eigi síðar en 13. desember 2019.

Ísland undirritaði þennan fyrsta stóra mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, ef svo má að orði komast, sem gerður hefur verið á þessari öld, árið 2007. Ísland fullgilti samninginn 2016. Með fullgildingunni skuldbatt Ísland sig til að tryggja fötluðu fólki þau réttindi sem samningurinn mælir fyrir um en sú skuldbinding er aðeins samkvæmt þjóðarétti. Hins vegar þarf í íslenskri lagatúlkun að lögfesta alþjóðlega samninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif hér á landi. Þess vegna skiptir miklu máli að átta sig á muninum á lögfestingu og fullgildingu. Samkvæmt íslenskri réttarskipan er ekki hægt að beita samningnum með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum, eins og hægt er að gera með almenn lög, nema samningurinn hafi verið lögfestur.

Hafi samningurinn einungis verið fullgiltur, eins og hefur verið gert, en íslensk lög stangast á við einhver ákvæði samningsins víkja ákvæði samningsins. Ísland aðhylltist svokallaða tvíeðliskenningu. Hér þarf að lögfesta alþjóðasamninga ef þeir eiga að hafa gildi eins og almenn lög. Að sjálfsögðu hafa mannréttindasáttmálar og samningar sem Ísland hefur fullgilt áhrif á hvernig við túlkum lög o.s.frv.

Flutningsmenn þessarar tillögu, sem koma úr öllum flokkum hér á þingi, hafa talið nauðsynlegt að gengið sé skrefinu lengra og að við beinlínis lögfestum samninginn. Við höfum einungis gert þetta í örfá skipti, við höfum lögfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, við höfum lögfest mannréttindasáttmála Evrópu og við höfum lögfest EES-samninginn. Að sjálfsögðu erum við aðilar að fjölmörgum öðrum mannréttindasamningum og alþjóðasáttmálum en að okkar mati sem leggjum þetta mál fram er nauðsynlegt að ganga lengra og beinlínis lögfesta þennan samning.

Frú forseti. Hér mun ég aðeins fara nánar inn í efni þingmálsins. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun 13. desember 2006 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn er sem sagt alþjóðasamningur sem felur í sér skyldur aðildarríkja til þess að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks. Segja má að fatlað fólk sé fjölmennasti minnihlutahópur heims og hefur verið áætlað að um 650–800 milljónir manna séu með einhvers konar fötlun. Fatlað fólk er að sjálfsögðu mjög fjölbreytilegur og margbreytilegur hópur fólks. Það er mikilvægt að hafa það í huga þegar unnið er að réttindamálum fatlaðs fólks. Þá er mjög mikilvægt og auðvitað skylt, samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna, að tryggja mjög víðtækt og virkt samráð við fatlað fólk og samtök sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum þess. Þetta þarf að verða algjörlega tryggt í orði og á borði.

Markmið samningsins eru að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess. Mikilvægustu skilaboð samningsins eru að fatlaðir einstaklingar eigi fullan rétt á öllum viðurkenndum mannréttindum til jafns við aðra og að þeir eigi að fá að njóta sjálfstæðs lífs og einstaklingsfrelsis á við aðra. Til að svo megi verða er í samningnum lögð sérstök áhersla á tækifæri fatlaðs fólks til fullrar þátttöku á öllum sviðum mannlífs og samfélags og spjótum er beint að venjum og siðum, staðlaðri ímynd, fordómum, skaðlegri framkvæmd, einangrun og útilokun sem tengist fötluðu fólki. Svona mætti lengi telja.

Að okkar mati er þessi samningur mjög öflugt tæki í baráttunni fyrir fullum mannréttindum fatlaðs fólks. Mikilvægasta verkefnið er þó enn og verður áfram að tryggja öllu fötluðu fólki í verki öll þau réttindi sem mælt er fyrir um í samningnum. Þá ítreka ég enn og aftur að það er skylt og mikilvægt að tryggja samstarf og samráð við fatlað fólk og réttinda- og hagsmunasamtök þess, við persónulega talsmenn þess, sérfræðinga í málaflokknum o.s.frv. svo að hægt sé að gera markvissar og viðeigandi breytingar og ráðstafanir í allri stefnumótun og áætlanagerð, reglusetningu og framkvæmd.

Í upphafi máls míns gat ég aðeins um að fullgildingin er ekki nægjanleg. Auðvitað er það fagnaðarefni að Ísland fullgilti samninginn en fullgildingin er ekki nóg. Nú mun ég fara aðeins nánar í það. Íslensk stjórnvöld undirrituðu samninginn án fyrirvara 30. mars 2007, fyrir rúmum 11 árum, ásamt valkvæðum viðauka við hann. Níu árum seinna, 20. september 2016, fyrir um tveimur árum, var samningurinn loksins fullgiltur fyrir Íslands hönd í samræmi við ályktun Alþingis nr. 61/145, en fullgilding á mannréttindasamningi í framkvæmd hefur m.a. stuðst við 21. gr. stjórnarskrárinnar og þarf að leita samþykkis Alþingis fyrir slíku.

Fullgilding samnings, eins og ég gat um áðan, er mjög mikilvægur áfangi í að tryggja fötluðu fólki mannréttindi og tækifæri sem flestu ófötluðu fólki þykja sjálfsögð. Með fullgildingu á samningnum skuldbinda íslensk stjórnvöld sig til að tryggja fötluðu fólki öll þau lágmarksréttindi sem samningurinn mælir fyrir um, auk þess að gera þær breytingar á íslenskri löggjöf, reglum, stjórnsýsluframkvæmd og þjónustu sem nauðsynlegar eru til að tryggja að ákvæði samningsins verði uppfyllt.

Þótt íslensk stjórnvöld séu með fullgildingu skuldbundin til að tryggja fötluðu fólki þau réttindi sem samningurinn mælir fyrir um er sú skuldbinding — ég ítreka þetta — aðeins samkvæmt þjóðarétti. Vegna tvíeðliskenningarinnar svokölluðu, sem lögð er til grundvallar í lagatúlkun á Íslandi og í Bretlandi, Ástralíu og öðrum Norðurlöndum, þarf að lögfesta alþjóðasamninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif hér á landi. Því er samkvæmt íslenskri réttarskipan ekki hægt að beita samningnum með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum, eins og hægt er að gera með almenn lög, nema hann hafi verið lögfestur.

Ég ítreka að auðvitað taka dómstólar mið af alþjóðasamningum og ekki síst mannréttindasamningum við túlkun sinna úrlausnarefna. En samkvæmt íslenskri stjórnskipun fær þjóðréttarsamningur ekki lagagildi nema löggjafarvaldið grípi til sérstakra aðgerða til viðbótar við fullgildinguna, þ.e. veiti samningnum lagagildi, og það er það sem við leggjum hér til, að samningurinn fái lagagildi. Hafi samningur einungis verið fullgiltur en íslensk lög stangast á við hann víkja ákvæði samningsins. Afleiðing vegna beins áreksturs laga og skuldbindinga samkvæmt fjölþjóðlegum samningi kann hins vegar að vera sú að íslenska ríkið hafi brotið gegn þeirri þjóðréttarlegu skyldu sem stofnast við fullgildingu samningsins. Getur þá íslenska ríkið hlotið aðfinnslur og ábendingar frá fjölþjóðlegum eftirlitsaðilum sem mælt er fyrir um í slíkum samningum að skuli hafa eftirlit með því hvernig aðildarríki uppfylla þá.

Frú forseti. Íslenskur doktorsnemi í lögfræði við Harvard-háskóla, Kári Hólmar Ragnarsson, sagði nýlega í Úlfljóti, tímariti laganema við Háskóla Íslands, að nýjustu dómar Hæstaréttar bentu til þess að dómstóllinn væri gríðarlega tregur til þess að fjalla um félagsleg réttindi og að staða þeirra fyrir íslenskum dómstólum væri veik og vernd þeirra hefði hrakað á allra síðustu árum. Í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í grein sinni rekur Kári Hólmar að Hæstiréttur hafi aðeins einu sinni fallist á málsástæðu á grundvelli þessa stjórnarskrárákvæðis, en það var í hinum svonefnda öryrkjabandalagsdómi árið 2000. Þá komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að lög frá Alþingi, sem fólu í sér skerðingu örorkubóta vegna tekna maka, brytu í bága við umrætt ákvæði stjórnarskrárinnar. Kári segir að í kjölfar dómsins hafi verið höfð uppi stór orð um að túlkun dómstóla á ákvæðum varðandi félagsleg réttindi gæti leitt af sér stórvægilegar breytingar á stjórnarskránni. Sá spádómur hafi hins vegar ekki ræst.

Frú forseti. Þrátt fyrir þau jákvæðu áhrif sem fullgilding samningsins hefur haft í för með sér telja flutningsmenn þessarar tillögu nauðsynlegt, eins og ég gat um áðan, að ganga skrefinu lengra. Þess vegna erum við hér að álykta að lögfesting samningsins eigi sér stað eigi síðar en 13. desember 2019 en þá verða einmitt 13 ár liðin frá því að hann var samþykktur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Samhliða lögfestingunni skal aðlögun íslenskra laga að ákvæðum samningsins einnig hafa verið lokið þá.

Þó nokkrir þingmenn hafa beitt sér fyrir auknu vægi samningsins sem og aðlögun íslenskra laga að samningnum. Nú síðast lagði hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fram þingsályktunartillögu um að fela forseta Alþingis að skipa sérnefnd þingmanna sem hefði það hlutverk að hefja heildarendurskoðun lögræðislaga og að auk heildarendurskoðunar á lögunum yrði sérstaklega litið til ákvæða þessa samnings, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Mikilvægt er að það umrædda þingmál nái fram að ganga.

Einnig ber að geta þess að þingsályktunartillaga um fullgildingu samningsins var lögð fram árið 2016 undir forystu Kristjáns L. Möllers, en meðflutningsmenn voru úr mörgum stjórnmálaflokkum. Velferðarnefnd, undir forystu Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur formanns og Páls Vals Björnssonar framsögumanns, afgreiddi síðan málið um fullgildinguna með skýrslu samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis. Loks ber að geta þess að félags- og jafnréttismálaráðherra hefur lagt fram stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021. Þar kom m.a. fram að kynna bæri mun betur samninginn um réttindi fatlaðs fólks ásamt fjölmörgum aðgerðum í þágu fatlaðra. Samkvæmt þessari áætlun ber að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í alla lagaumgjörð og framkvæmd en eftir stendur — ég vek athygli á því — sjálf lögfestingin sem, eins og ég hef getið um, hefur mikla efnislega þýðingu varðandi beitingu samningsákvæðanna. Við erum því mjög vongóð um að hér náist þverpólitísk samstaða um að stíga það skref sem þingsályktunartillagan fjallar um.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, barnasáttmálinn, var einmitt lögfestur árið 2013, en fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu, sá sem hér stendur, lagði fram þingsályktunartillögu um að lögfesta bæri barnasáttmálann og var hún samþykkt á Alþingi árið 2009. Var þetta mitt síðasta þingmál áður en ég yfirgaf þingið á þeim tíma.

Flutningsmenn þessarar tillögu sem hér er til umræðu vekja sérstaklega athygli á því að í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er það gert að kröfu að til sé sjálfstæð innlend eftirlitsstofnun, samanber 33. gr. samningsins. Drög að frumvarpi til laga um sjálfstæða mannréttindastofnun hafa verið birt á vef dómsmálaráðuneytisins en slík mannréttindastofnun þarf að uppfylla kröfur sem gerðar eru til slíkra stofnana í svokölluðum Parísarviðmiðum sem samþykkt voru á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1993. Við leggjum mikla áherslu á mikilvægi þess að hér verði sett á fót slík sjálfstæð mannréttindastofnun sem tekur til fleiri hópa en fatlaðs fólks en hafi það hlutverk að efla og vernda mannréttindi hér á landi samkvæmt stjórnarskrá, lögum, alþjóðasamningum og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum.

Þá vil ég leggja sérstaka áherslu á að hinn svokallaði valkvæði viðauki við samninginn verði einnig fullgiltur hér á landi en í honum er fjallað um kæruleið til eftirlitsnefndar fyrir einstaklinga og hópa sem hafa fullreynt leiðir innan lands. Nú þegar hafa 92 ríki fullgilt þennan valkvæða viðauka en í september 2016, fyrir u.þ.b. tveimur árum, ályktaði einmitt Alþingi að valkvæði viðaukinn við samninginn yrði einnig fullgiltur fyrir árslok 2017. Það hefur hins vegar ekki verið gert þannig að við þurfum að stíga það skref samhliða þessu að mínu mati.

Það hefur vakið sérstaka athygli að þýðingar á þessum samningi hafa verið ónákvæmar og við nefnum það í greinargerð þessarar þingsályktunartillögu að við þurfum að kippa því í lag. Auðvitað þarf þýðing á svona alþjóðasamningi að vera í lagi þannig að við ítrekum að bætt verði úr þeim annmörkum sem m.a. velferðarnefnd þess tíma, sem fjallaði um fullgildinguna, benti sérstaklega á að þyrfti að gera. Sömuleiðis komu þar talsverðar athugasemdir þegar samningurinn var fullgiltur sem ég hvet hv. þingnefnd sem fær málið til skoðunar að skoða.

Að lokum legg ég mikla áherslu á að unnið verði að lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að samningnum í góðu og virku samráði við fatlað fólk, hagsmunahópa þess, sveitarfélög og fræðasamfélagið. Það skiptir miklu máli að þetta sé unnið í góðri samvinnu við þann hóp.

Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu eru Ágúst Ólafur Ágústsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, (Forseti hringir.) Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Inga Sæland, Jón Steindór Valdimarsson, Logi Einarsson, Njörður Sigurðsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Sara Elísa Þórðardóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Að lokum legg ég til að þessu máli verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni umræðu hér.