149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

6. mál
[17:51]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér hvort þessi tillaga sé góð nýting á tíma okkar. En gott og vel, við getum svo sem tekið þetta að okkur og farið með þetta sem einhvers konar heimspekilegt umræðuefni.

Fyrst hv. 1. flutningsmaður vísaði í Frakkann Robespierre þá vísa ég í annan Frakka, Dominique de Villepin, sem sagði einhvern tímann að ásakanir væru gagnslausar. Í grunninn felast í þessari tillögu og andstöðu minni við hana tvenns konar mismunandi hugmyndir um það hvernig réttlætið virkar í réttarríki.

Annars vegar er sú hugmynd, sem er grundvöllur réttarríkisins að ég tel, að ef upp kemur grunur um glæpsamlegt eða ólöglegt athæfi, og ákæruvaldið telur meiri líkur en minni á því að sekt verði sönnuð, sé eðlilegt að málið fari fyrir dómstóla. Í þessu felst grundvallarreglan um sakleysi uns sekt er sönnuð og hún er gríðarlega mikilvægur hornsteinn réttarríkisins. Að ákæra er að skaðlausu, það er enginn dómur fólginn í því og fólk á auðvitað að virða það. Það er dómur dómstólsins sem er dómur og ekkert annað.

Gagnstæða hugmyndin birtist í þessari tillögu, að mínu mati, og tillagan kemur meira að segja til þingsins undirrituð af menntuðum lögfræðingum sem ég á svolítið erfitt með að skilja. Þeir eiga jú að vita betur en aðrir hvernig réttarríkið virkar. Það er sú hugmynd að í ákærunni sjálfri felist dómur og að sekt þurfi ekki að sanna heldur sé dómstóllinn í raun bara fyrsta stig refsingar. Þessi hugmynd er fráleit, ekki bara vegna þess að ef hún er sönn í tilfelli Geirs H. Haarde verðum við annaðhvort að játa á okkur tvískipt kerfi réttlætis, þar sem valdhafar fá annars konar meðferð en aðrir, eða þá að við verðum að afnema þá meginreglu að fólk sé saklaust uns sekt er sönnuð. Ég er til í hvorugan þeirra valkosta, mér finnst þeir báðir slæmir.

Höfum í huga að Landsdómur sýknaði Geir H. Haarde af öllum ákæruliðum nema einum, þ.e. hin formlega afsökunarbeiðni, þ.e. sýknan, sönnun á sakleysi. Höfum einnig í huga að Landsdómur sakfelldi Geir H. Haarde í einum lið, sekt var sönnuð en reyndar með afar hóflegri refsingu, eins og var rakið.

Nú spyr ég: Ætla Miðflokkurinn og þeirra pólitísku samherjar virkilega að fara að standa fyrir því að óska eftir því að Alþingi biðji mann sem var fundinn sekur um mjög lítilvægan glæp en glæp engu að síður — glæpur er kannski ekki rétta orðið, afsakið, tæknimennirnir geta kannski leiðrétt mig, en alla vega lögbrot — afsökunar? Ef það er tilfellið langar mig að vita hvort þessi hópur hyggist biðja fleiri seka menn afsökunar og þá á hverju og á hvaða forsendum. Hvar eru línurnar dregnar? Hvenær telst lögbrot nógu smávægilegt til þess að þeir sem eru fundnir sekir um það fái afsökunarbeiðni uppákvittaða af sjálfu Alþingi? Jafnvel mætti spyrja: Ef ekki á að nota það úrræði sem Landsdómur er þegar svona tilfelli koma upp og þegar slíkur grunur vaknar hvaða varnagla á þá að slá gagnvart misnotkun valds eða öðrum brotum á ráðherraábyrgð? Kannski ekki neina? Það hefur þvert á móti lengi vantað að ábyrgð fylgi valdi á Íslandi, að þingmenn sem verða uppvísir að því að misnota vald sitt eða hagnast persónulega á því að misnota reglur, axli ábyrgð á því; að ráðherrar sem verða uppvísir að skattundanskotum eða annars konar lögbrotum segi af sér og sæti jafnvel eðlilegri rannsókn. Ég segi þetta ekki út af persónulegum kala gagnvart einum eða neinum hér eða annars staðar, heldur segi ég þetta þvert á móti vegna þess að mér finnst algjört grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi að hegðun og atferli kjörinna fulltrúa sé hafið yfir allan vafa. Þegar vafi kemur upp og til ákæru kemur verða menn einfaldlega dæmdir eða ekki eða þeir verða einfaldlega dæmdir sekir eða saklausir.

Fyrir liggur að Geir H. Haarde var dæmdur í einum lið og sýknaður í öðrum. Svo að því sé haldið til haga hefur Mannréttindadómstóll Evrópu lagt blessun sína yfir það hvernig þetta fór allt saman fram. Þetta er því ekki vandamál sem þarf raunverulega að leysa.

Það tvöfalda réttlæti að stjórnmálamenn og aðrir valdhafar og jafnvel bara vel tengdir aðilar í samfélaginu eða auðmenn, eða hverjir það eru, fái alltaf vægari meðferð en allir aðrir, þegar réttlætismál koma upp, er skammarlegt fyrir samfélagið. Ef eitthvað er þá ættu það að vera þeir sem biðja almenning beinlínis um að veita sér aukið vald umfram aðra sem ættu að þurfa að þola hörðustu rýnina. Þingmenn og ráðherrar sem verða uppvísir að brotum í þágu sjálfs sín eða þágu vandamanna sinna eiga að bera meiri ábyrgð en aðrir og ráðherrar sem brjóta gegn lögum um ráðherraábyrgð eiga að sjálfsögðu ekki að fá afsökunarbeiðni fyrir það að bent sé á það og eðlilegu ferli fylgt.

Ég hef engar efasemdir um að Geir H. Haarde sé hinn vænsti maður og sömuleiðis Björgvin G. Sigurðsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Árni Mathiesen sem öll lágu undir sambærilegum ávítum á þeim tíma. Þegar grunur vaknar þá er eðlilegt að fylgja eðlilegu ferli og þarf ekki að biðjast afsökunar á því ferli. Ef biðjast ætti afsökunar á einhverju þá væri það kannski frekar að hafa ekki leyft hinum ráðherrunum sem fengu þessar ávítur á sig að standa það af sér fyrir dómi frekar en að hafa óvissuna hangandi yfir sér til frambúðar.

Þetta mál er fráleitt og ég satt að segja skil illa hverju flutningsmenn málsins eru að reyna að ná fram með þessari tillögu. Það er engu líkara en verið sé að ýfa upp gömul sár og höfum í huga að það er næstum áratugur liðinn. Það er verið að ýfa upp gömul sár kannski af einhverjum flautaþyrilgangi sem er slæm nýting á tíma okkar hér. Ég ætla því ekki að sóa meiri tíma í frekari umræðu um þetta mál ótilneyddur.