149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

6. mál
[18:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Það er kominn tími til að mál sem þetta fái umræðu og vonandi afgreiðslu á Alþingi. Ég var á þingi þegar þessi óskapnaður gekk yfir og það kenndi manni ýmislegt, ekki eingöngu um það hvernig Alþingi getur starfað heldur líka hversu sérkennilegt mannlegt eðli getur verið. Ég leyfi mér að orða það þannig.

Hér í þessum sal fóru fram pólitísk réttarhöld. Hér voru ákveðnir einstaklingar teknir út fyrir sviga og sagt að þeir bæru ábyrgð á einhverjum hlut sem þeir gátu ekki komið í veg fyrir eða borið ábyrgð á í rauninni eins og margoft hefur komið fram og verið sýnt fram á. Hér var reiknað út hvernig atkvæðagreiðslan átti að fara. Hér frammi voru menn dregnir inn í herbergi, það var hringt, menn voru teknir afsíðis til að tryggja að atkvæði féllu svona og svona. Þetta voru pólitísk réttarhöld, niðurstaðan var útreiknuð enda hefur kannski komið í ljós að eftir á eru ekkert allir rosalega brattir með hvernig þetta var. Mig minnir einmitt að hv. fyrrverandi þingmaður Ögmundur Jónasson hafi sagt frá því hvers konar vitleysa hafi verið hér í gangi.

Hér var Alþingi sett í þá stöðu að einhverjir stjórnmálamenn vildu fara í pólitískt uppgjör. Þeir sögðu: Nú er tækifærið, klekkjum á þessum andskotum. Afsakið orðbragðið, virðulegi forseti. Þetta voru pólitísk réttarhöld og ekkert annað. Það var sorglegt, ég ætla ekki að lýsa því hvað það var ömurlegt að vera hérna og verða vitni að þessu. Maður sá líka og heyrði hvernig þingmenn töluðu, að nú væri tækifærið til að sýna þeim í eitt skipti fyrir öll að svona gengi ekki, að þessir aðilar gætu ekki farið með völdin eins og ekkert væri o.s.frv.

Ég var að lesa frásagnir frá þessum tíma fyrir þessa ræðu, það sem þingmenn höfðu sagt í samtölum við fréttamenn og aðra um hvernig þeim liði. Ég get alveg vottað að manni leið einhvern veginn eftir þessa atkvæðagreiðslu eins og eitthvað hefði hreinlega dáið. Það var búið að niðurlægja Alþingi með þessu, með pólitískum réttarhöldum sem áttu aldrei að eiga sér stað. Þetta var algjörlega sorglegt. Svo koma menn hér eins og þingmaður Pírata og fara að tala um að tímanum sé illa varið. Þeir ættu að fara frekar yfir það sem Píratar eru að gera í þinginu og reyna að nýta tímann betur.

Hér var, ég ætla bara að segja það, farið í pólitísk réttarhöld yfir fólki sem átti það ekki skilið — og það má ekki ræða það hér. Árið 2011 reyndi formaður Sjálfstæðisflokksins að koma vitinu fyrir þingmenn hér, vildi leggja fram tillögu um að draga þessa ákvörðun til baka. Hún var reyndar lögð fram en það var komið í veg fyrir að hún fengi afgreiðslu, mikið til af sama fólkinu og stóð að ákærunni.

Virðulegur forseti. Það er kominn tími til að Alþingi biðji sérstaklega fyrrverandi forsætisráðherra afsökunar á þessu og líka þá aðra sem voru sérstaklega ákærðir í þessum ákærum. Gleymum því ekki að Alþingi var ákæruvaldið. Meiri hluti þess samþykkti að ákæra og þá geta menn ekki sagt að þetta hafi bara verið einhver niðurstaða á þingi. Svo átti landsdómur að fjalla um málið og komast að sekt eða sakleysi. Þingmenn tóku þá afstöðu, byggða á pólitískri hugsun, ekki á rökum, að það ætti að ákæra þetta fólk og sér í lagi þennan einstakling, fyrrverandi forsætisráðherra.

Ég tók til máls um þetta mál þá. Mér er jafn mikið niðri fyrir núna og mér var þá, fyrir tæpum áratug. Ég ætla ekki að segja að ég hafi vitað það en það var a.m.k. mín skoðun að þetta myndi elta Alþingi í fjölmörg ár, það væri búið að setja Alþingi niður með þessu, ekki vegna þess að þetta byggði á því að menn hefðu komist að einhverri málefnalegri niðurstöðu, nei, þetta var tækifæri sem menn nýttu sér. Það er það sem er sorglegast í þessu. Þarna átti að gera upp.

Nú er tækifæri til þess aðeins að rétta hlutinn. Hann verður aldrei að fullu réttur, það vitum við. Hver var niðurstaða landsdóms? Jú, jú, fyrrverandi forsætisráðherra var skammaður fyrir að halda ekki nógu marga fundi. Manni fannst þetta pínulítið grín, ég verð að segja alveg eins og er, eftir allan þennan málatilbúnað. Eftir allt sem var búið að gerast og setja Alþingi niður með þessu var það niðurstaðan. Alveg stórfurðulegt.

Ég held reyndar að það ætti að gera annað. Ég held að Alþingi ætti að sjá sóma sinn í því að þakka Geir Hilmari Haarde fyrir að leiða Ísland í gegnum þennan tíma, 2008–2009. Hver leiddi hér og beitti sér fyrir neyðarlögunum? Var það ekki fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Hilmar Haarde? Hafa menn þakkað það sérstaklega? Er ekki rétt að taka þetta ógeðslega grjót hérna úti og setja mynd af manninum þar í staðinn? Það er alveg stórfurðulegt hvernig menn hafa hagað sér í þessu máli öllu saman.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta mál fái snögga og góða afgreiðslu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að hér verði ekki reynt að gera það sama og 2011 þegar komið var í veg fyrir að þáverandi formaður — já, hann er það reyndar enn þá — Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, núverandi fjármálaráðherra, sem reyndar hefur leitt suma af þessum fuglum til valda aftur, að ekki verði aftur komið í veg fyrir að Alþingi geri hreint fyrir sínum dyrum varðandi þetta mál. Það er kominn tími til að gera það. Ég vona, virðulegi forseti, að það sé hægt að loka þessum kafla um þetta mál með þessum hætti. Því miður mun þessi framkvæmd og það pólitíska sjónarspil sem hér fór fram, þetta ærumorð á þessum manni sérstaklega, hanga yfir Alþingi um ókomna tíð.