149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

6. mál
[18:15]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa nein orð um þá atburðarás sem málið fjallar um sem var hérna fyrir tíu árum. Ég var ekki starfandi í stjórnmálum og bjó ekki einu sinni á Íslandi á þeim tíma. Hins vegar hjó ég pínulítið eftir því í þessari áhugaverðu umræðu að það er ofboðslega mikil áhersla á það hvað gerist hérna inni og ekki út frá samfélaginu, út frá almenningi, hlutdeild hans og því hvernig almenningur upplifði þetta allt saman.

En ég ætla að færa mig yfir í annað mál. Þegar kollegi minn í Pírötum sagði upphaflega að þetta væri sóun á tíma Alþingis var ég sammála. Eftir að hafa hlýtt á umræðuna er ég hins vegar eiginlega komin á þá skoðun að hún sé mjög nauðsynleg, eins og ég segi ekkert endilega nákvæmlega hver gerði hverjum hvað fyrir tíu árum heldur hvernig við viljum hafa þessa hluti inni á Alþingi. Hvernig viljum við hafa formið? Þessi umræða hefur opnað augu mín mjög mikið. Hv. þm. Brynjar Níelsson kom með annan vinkil sem ég var ekki búin að sjá fyrr en hann benti á hann, t.d. það hvernig Alþingi fer með ákæruvald sitt. Það er allt annað en raunverulega frá því hver niðurstaðan varð í þessu einstaka máli.

Hv. þm. Brynjar Níelsson talaði mikið um uppgjör í ræðu sinni. Þá langar mig að spyrja: Er samt ekki ástæða til að hafa einhvers konar uppgjör, ekki pólitískt en einhvers konar uppgjör með reglulegu millibili? Eins spyr ég: Er þetta mál ekki raunverulega líka uppgjör sem er verið að flytja hérna í dag?

Ég ætla að ljúka þessu með því að segja að það er mjög áhugavert, skemmtilegt og gott að koma upp núna vegna þess í lok vikunnar, minnir mig, leggur hæstv. forsætisráðherra fram traustsskýrsluna merkilegu og áhugaverðu. Í samhengi þess er mjög gott að þessi umræða hafi opnað málið.

Við sem störfum á Alþingi Íslendinga þurfum að spyrja okkur: Hvernig viljum við hafa þetta?