149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef framið stjórnmálalega synd, ég hef skipt um skoðun. Reglulega eru hér til umræðu mál sem varða verðtryggingu. Verðtrygging húsnæðislána er hitamál víða í samfélaginu. Ég hef sjálfur haldið hér fleiri en tvær ræður um að þótt hún sé ekki endilega jákvætt fyrirbæri sé hún ill nauðsyn, eina leiðin til að gera fjárhagslegar langtímaskuldbindingar mögulegar meðfram íslenskri krónu án himinhárra vaxta. Ég hef enn fremur nefnt að neytendur geti valið lán sem henti sér og sínum aðstæðum. Tvö andstæð gildi stangast þar á, þ.e. valfrelsi neytenda og neytendavernd. Hvort tveggja aðhyllist ég, en eins og ég hef sagt áður stangast þau stundum á.

Þótt ég sé ekki í grundvallaratriðum á móti allri verðtryggingu og telji hana t.d. eðlilega við langtímasparnað hef ég komist að þeirri niðurstöðu, eftir ótal samtöl og spekúleringar, ekki síst við fólk sem er að taka húsnæðislán, að það sé óæskilegt að húsnæðislán séu verðtryggð, sérstaklega svokölluð verðtryggð jafngreiðslulán, sem er yfirþyrmandi vinsælasta húsnæðislánaformið á Íslandi. Ég nefni það í leiðinni að ég tel þetta ekki vera jafngreiðslulán en meira um það síðar.

Neytendavernd þeirra lána er að mínu mati fullkomlega ómöguleg. Þau eru einfaldlega of flókin til þess að hægt sé að ætlast til þess af almennum neytendum að þeir átti sig á því hvað þeir séu að gera til framtíðar þegar þeir taka þessi lán. Þau eru ekki bara flókin, þau eru líka stórfurðuleg. Og hætturnar sem neytandinn á að vara sig á eru of „esoterískar“ til að hægt sé að gera þá kröfu á hendur almenns neytanda.

Enn fremur hef ég sannfærst meira um ákveðin neikvæð kerfisleg áhrif verðtryggðra húsnæðislána á hagkerfið í heild sinni algerlega óháð sjónarmiðum neytandans.

Þó vil ég halda til haga að ég tel rökin sem ég hef fært fyrir nauðsyn þess að bjóða upp á verðtryggð húsnæðislán meðfram íslenskri krónu enn vera góð rök. Mótrökin hafa hins vegar styrkst í mínum huga og er því hinu fyrra jafnvægi sannfæringar minnar raskað.

Eins og heyrist verður þessi ræða ekki mjög góð á þessum stutta tíma, en ég hlakka til (Forseti hringir.) tækifæra til að ræða málið nánar við umfjöllun hinna ýmsu þingmála sem fjalla um verðtryggingu á þessu þingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)