149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[14:23]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir yfirferðina og vil byrja á því að fagna því sérstaklega að verið sé að stíga skref til lækkunar á tryggingagjaldi sem var löngu tímabært. Það er ánægjulegt að sjá það loksins ganga eftir. Tryggingagjald verður þá sennilega við lok þessa lækkunarferils sambærilegt því sem það var í aðdraganda hrunsins. Það hækkaði síðan verulega eftir það og þessi lækkun er löngu tímabær út frá atvinnuleysisstigi og öðru.

Það sem vekur hins vegar athygli mína er annað. Ég hef gagnrýnt mikla útgjaldaaukningu í fjárlagafrumvarpinu og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar almennt og spurt hvaða skatta eigi að hækka. Mér sýnist að embættismenn fjármálaráðuneytisins hafi fundið leið til að hækka skatta á hverju ári fram á veginn með þeim breytingum sem verið er að gera hér varðandi tekjuskattskerfið. Það er nefnilega þannig að laun hækka að jafnaði 1,5% umfram verðlag ef við tökum yfir löng tímabil og með því að miða þá tekjumörkin, bæði hvað varðar neðra og efra þrep og persónuafslátt, við vísitölu neysluverðs og uppreikna það þannig á hverju ári í stað þess að miða við launavísitölu erum við í raun og veru alltaf hægt og rólega að færa skattbyrðina neðar í tekjutíundirnar, þ.e. hún þyngist þá á þessa tekjulægstu hópa, af því að persónuafsláttur er þá uppfærður miðað við vísitölu neysluverðs en ekki launa. Hér á því að breyta því þannig að efra skattþrepið sé þá uppreiknað þannig líka.

Er það rangt skilið hjá mér, hæstv. fjármálaráðherra, að hér sé fram á veginn hægt og rólega verið að hækka skattbyrðina á alla launþega í landinu? Og að hér hafi fjármálaráðuneytið fundið upp sjálfvirka skattahækkun?