149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[14:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði upprunalega í andsvar við hæstv. fjármálaráðherra en í einhverri tímabundinni geðsturlun hætti ég við það. Ég sé mjög mikið eftir því, því að ég hefði viljað spyrja hann.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson fór yfir sama efni og þess vegna held ég að það sé ágætt að spyrja hann út í þetta sömuleiðis. Það varðar þessa breytingu á fjárhæðarmörkum milli neðra og efra þreps tekjuskattsstofnsins. Ég held að ég skilji það vandamál sem fólk er að reyna að leysa með þessu, en ég hef mínar efasemdir um tilgang svona breytinga og upplifi sömu tilfinningu og hv. þingmaður þegar fólk talar um húsnæðisliðinn í neysluverðsvísitölunni, að það velur oft tímasetningar eftir hentugleikum. Og núna akkúrat virðist vera alger samhugur um að við séum á toppi hinnar svokölluðu hagsveiflu. Það virðast vera áhyggjur í samfélaginu, og reyndar von sums staðar, um að krónan fari að lækka, enda er hún mjög há, það virðist samhugur um það. Það er ekkert erfitt að ímynda sér að í náinni framtíð muni neysluverðsvísitala fara fram úr launavísitölu. Þá einmitt, ef það gerist, sem mér finnst líklegt, munu þau áhrif sem hér er verið að reyna að koma í veg fyrir halda áfram eins og ég skil þetta.

Mig langaði svo að heyra meira frá hv. þingmanni um hvort sá skilningur sé réttur hjá mér að hans skilningi og sérstaklega út í það að við viljum hafa sömu töluna á þessum fjárhæðarmörkum og því sem ákvarðar persónuafsláttinn. Gott og vel, ég skil það. En ætti það þá ekki frekar að vera launavísitala almennt? Ég velti því fyrir mér. Þetta eru jú laun sem við erum að tala um. Það er stundum sagt í eðlisfræði að fallegar formúlur séu líklegar til að vera réttar. Ég veit ekki hvort það á við í þessari grein. En mér finnst það einhvern veginn eðlilegra í fljótu bragði og mig langar að heyra álit hv. þingmanns á því.