149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:12]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að það liggur þá fyrir að hv. þingmaður telur rétt að tekjutengja barnabætur með einhverjum hætti. Þá er bara spurningin um hvar það er. Sama á við um vaxtabætur. Það hlýtur þá líka að þýða að horft er til annarra þátta, m.a. eignarinnar, nettóeignar, í vaxtabótakerfinu.

Það segir sig sjálft að þegar vaxtabætur lækka, þ.e. heildarvaxtabætur sem ríkissjóður greiðir, felur það í sér að hagur fólks er að batna, ef annað er óbreytt. Tekjur eru að aukast, skuldir eru að lækka, eignastaðan er að batna. Það ætti að kæta okkur hér í þessum sal vegna þess að það er merki um að við erum að ná árangri. Við erum að ná árangri í því að bæta hér lífskjör.

Það má líka hafa í huga, eins og hæstv. fjármálaráðherra benti á fyrr, að það þýðir ekki eingöngu að horfa til vaxtabótanna eða hversu há fjárhæð fer í þær. Það verður líka að taka inn í hvað búið er að gera hér og þær skattaívilnanir sem eru fólgnar í því að leyfa fólki að taka út séreignarsparnað og nýta hann til að byggja upp eigið fé í íbúðum. Þegar allt er tekið saman þá hjálpar þetta allt og hefur m.a. áhrif til að draga úr þörfinni á vaxtabótum síðar. Þetta er mjög skynsamleg aðferð og ég hygg að hv. þingmaður hljóti að geta glaðst yfir því þegar vel gengur; tekjur launafólks eru að hækka, eignarstaðan að batna, skuldir lækka og lífskjörin þar með.