149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og svo oft í umræðum þá tala ég mig einhvern veginn inn á stóra vandamálið sem er verðbólgutilhneigingin á Íslandi en hún stafar að mínu mati að verulegu leyti af krónunni. Ég stend hér án lausna og án svara við þeim vanda. Hvernig eigum við að geta haft stöðugleika í þessum tölum í lögum án þess að hafa stöðugleika í verðlagi? Hvernig getum við haft stöðugleika í verðlagi án þess að hafa gjaldmiðil sem býður upp á það í agnarsmáu útflutningshagkerfi? Ég veit svo sem ekki hverju ég ætti að spyrja hv. þingmann að, en þakka honum fyrir svarið. Þetta er enn til vandræða í mínum huga, þessi tilhneiging okkar til þess að líta á verðbólguna sem náttúrulegt eðli hagkerfisins. Vandinn er auðvitað sá að að einhverju leyti er það þannig. Við erum einhvern veginn að reyna að finna lausnir til þess að komast hjá þeim vanda og grípum gjarnan til einhvers konar vísitölutengingar, verðtryggingar húsnæðislána, eða tengsla við aðrar vísitölur. Þá einmitt kemur þessi verðbólgusýki sem hv. þingmaður nefndi sem felur það í sér að við lítum ekki á það sem hækkun að hækka eitthvað til samræmis við verðlag. Mér þætti gaman að heyra stjórnmálamann segja að hann væri ekki að lækka skatta heldur einungis að stilla þá til samræmis við launaþróun. Það væri fyndið að heyra það einhvern tímann.