149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra. Takmarkaðir fjármunir. Ég er ekki sammála því að þarna sé um takmarkaða fjármuni að ræða. Það eru nú þegar komnir yfir 20 milljarðar í sparnað vegna krónu á móti krónu skerðingar. Hvernig væri að skila því?

Síðan tekjutengingar, að það sé ekki skattur, það er verið að plata. Við erum þegar með þingsályktunartillögu sem var samþykkt í fyrra um það þar sem var verið að skerða og skatta, sérstaklega lyfjastyrki og alls konar styrki. Þar er glöggt dæmi um hvernig það borgar sig ekki að taka við styrk fyrir lyfjum eða öðru vegna þess að það þýddi meiri kostnað, það hafði keðjuverkandi áhrif út um allt. Við ætlum að taka það af og það er auðvitað fyrsta skrefið. Það er mjög gott. En svona dæmi eru úti um allt.

Það er ömurlegt fyrir veikt fólk sem getur ekki varið sig, og ég veit það af eigin raun, að þurfa alltaf að vera að horfa í baksýnisspegilinn. Það fær einhverjar 10 eða 15 þús. kr. aukalega og það fer og gerir eitthvað fyrir þær af því að það á enga peninga og þarf á þessum peningum að halda til að kaupa sér lyf eða eitthvað. En ári seinna, á skerðingardeginum, er þetta tekið af þeim. Það þarf að greiða þetta aftur til baka til Tryggingastofnunar.

Ég segi fyrir mitt leyti: Það getur enginn skilið þetta og kemst enginn nálægt því að vita hversu niðurlægjandi og vitlaust þetta er nema vera í þessu kerfi, vera þarna hinum megin, þurfa að endurgreiða. Ég hef þurft að standa í því að endurgreiða allar mínar bætur til Tryggingastofnunar ríkisins. Allar til baka. Hverja einustu krónu í heilt ár. Hugsið ykkur vitleysuna. Og ef þetta er ekki leiðrétt segi ég fyrir mitt leyti: Hvað er að þessu kerfi og hvers vegna viljum við ekki leiðrétta það?