149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja við hv. þingmann að það er alveg rétt hjá honum að það eru dæmi um það í bótakerfunum að okkur mistakist að skilja eftir eðlilega hvata til að bjarga sér. Það er í raun og veru viðvarandi verkefni. Þetta er ekki dautt kerfi í þeim skilningi að það eru manneskjur á bak við það. Aðstæður þeirra eru sífellt að breytast. Það þarf að fylgjast mjög náið með hvernig samspil tekjuþróun í landinu og þeirra aðstæðna sem fjölskyldurnar búa við er við bótakerfin.

Hér hefur hin sérstaka framfærsluuppbót verið nefnd til sögunnar. Ég held að það hafi verið vel meint í upphafi en verkar ekki í dag sem skyldi. Það er eins konar fátæktargildra fólgin í þeim bótaþætti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það eru fleiri dæmi um slíkt. Við þurfum að átta okkur á því hvar jaðaráhrifin eru mest, hvar við drögum mest af fólki til að bjarga sér. Við í Sjálfstæðisflokknum höfum lengi haft slagorðið að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Kerfi sem dregur viljann úr fólki til að hjálpa sér sjálft stríðir mjög gegn þeirri hugsun okkar. Ég held að þar séum við alveg sammála. Það er enn verk að vinna. En mínar athugasemdir í fyrri ræðu sneru fyrst og fremst að því að við munum á endanum þurfa að sætta okkur við að þeir fjármunir sem við höfum úr að spila eru takmarkaðir.