149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[16:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2019. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á allmörgum lögum í samræmi við forsendur frumvarps til fjárlaga. Í frumvarpinu er einnig að finna tillögur að breytingum sem talið er nauðsynlegt að samþykktar verði fyrir áramót. Efnisatriði frumvarpsins eru af margvíslegum toga og hafa bæði áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Ég mun nú fjalla nokkuð ítarlega um þau atriði sem mestu máli skipta en sú yfirferð er ekki endilega í þeirri röð sem er að finna í frumvarpinu.

Ég ætla að byrja á kolefnisgjaldi. Hér er lagt til að fjárhæðir kolefnisgjalds verði hækkaðar um 10% 2019 og 10% 2020 sem ætlað er að beinist gegn losun koltvísýrings í andrúmsloftið og samræmist stefnu og skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum. Meginmarkmið aðgerðarinnar er að hvetja bæði heimili og fyrirtæki til að draga úr losun með orkuskiptum og bættri orkunýtingu. Áætlaður tekjuauki ríkissjóðs af 10% hækkun kolefnisgjalds er 550 millj. kr. að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt á árinu 2019 og svipuð fjárhæð árið 2020. Að teknu tilliti til hækkunarinnar verða áætlaðar tekjur ríkissjóðs af kolefnisgjaldi tæplega 6 milljarðar árið 2019. Áhrif þessa á vísitölu neysluverðs eru metin um 0,016% til hækkunar.

Ég mæli sömuleiðis fyrir verðlagsuppfærslu krónutöluskatta og gjalda. Í frumvarpinu er sem sagt að finna tillögur um 2,5% hækkun á þessum svokölluðu krónutölusköttum og gjaldskrám í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Þá er miðað við áætlaða 12 mánaða breytingu á vísitölu neysluverðs yfir árið 2019 sem er 3% samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir meiri hækkun en sem nemur 2,5% af verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Hér er um að ræða almennt og sérstakt bensíngjald, olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, bifreiðagjald, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins og gjald af áfengi og tóbaki. Gert er ráð fyrir að þessi hækkun skili ríkissjóði samanlagt 1,6 milljörðum kr. á ári að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt. Áhrifin á vísitölu neysluverðs eru áætluð 0,06% og er þá hækkun útvarpsgjalds og gjalds í Framkvæmdasjóð aldraða ekki innifalin en þau gjöld hafa ekki áhrif á vísitölu neysluverðs.

Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á gjaldahlutföllum eftirlitsgjalds samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Breytingarnar endurspegla álagt eftirlitsgjald að fjárhæð 2.330 millj. kr. Gert er ráð fyrir að heildargjöld Fjármálaeftirlitsins verði 2.429,8 millj. kr. og aðrar tekjur 41,2 millj. kr. Þannig er gert ráð fyrir að heildargjöld stofnunarinnar verði 58,6 millj. kr. umfram samtölu tekna og verði mætt með lækkun á eigin fé stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að breytingarnar, sem taka mið af rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins, hafi ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Hér er sömuleiðis lagt til að gjald sem standa á straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara verði 0,00835% sem er lækkun frá þessu ári. Í lögum um gjaldtökuna er kveðið á um að tekið skuli tillit til rekstrarafgangs eða rekstrartaps af starfsemi umboðsmanns við ákvörðun á fjárhæð gjalds fyrir næsta almanaksár. Innheimtar tekjur af gjaldinu eru áætlaðar 283,9 millj. kr. á næsta ári.

Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjald fær samkvæmt frumvarpinu 2,5% hækkun, allt í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Samkvæmt því verður gjaldið 11.454 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2019 vegna tekna ársins 2018. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði um 64 millj. kr viðbótartekjum á ári.

Jafnframt er gert ráð fyrir því að sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins verði hækkað úr 17.100 kr. í 17.500 kr. í takt við verðlagsbreytingar frumvarpsins. Áætlaðar viðbótartekjur af hækkuninni nema um 115 millj. kr. árlega.

Næst varðandi rekstrarkostnað hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttöku heimilismanna. Hér er lagt til nýtt ákvæði til bráðabirgða í lögum um málefni aldraðra. Er það gert til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Jafnframt er lagt til að gildandi ákvæði til bráðabirgða í lögunum verði framlengt. Það leiðir til þess að heimilt verður að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma á árinu 2019. Verði frumvarpið að lögum munu útgjöld ríkissjóðs aukast um 895 millj. kr. frá því sem annars hefði orðið.

Samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða er næst. Í frumvarpinu er lögð til framlenging á ákvæðum til bráðabirgða til að sporna gegn því að víxlverkun örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju á næsta ári. Þá er gert ráð fyrir að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði sú sama á árinu 2019 og á þessu ári. Frítekjumarkið er nú 1.315.200 kr. á ári sem jafngildir 109.600 kr. á mánuði. Verði það ekki framlengt mun frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna lækka niður í 300.000 kr. á ári sem mun leiða til lækkunar bóta hjá þeim örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem hafa atvinnutekjur yfir þessu marki. Að óbreyttu ákvæði hefðu útgjöldin lækkað um 1 milljarð kr. á árinu 2019.

Lögð er til framlenging á ákvæðum til bráðabirgða við lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða og lögum um tryggingagjald sem kveður á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2019. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi fyrir árin 2013–2018. Eftir sem áður er áfram gert ráð fyrir óbreyttri fjármögnun frá atvinnurekendum og lífeyrissjóðum, þ.e. 0,10%. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að samkomulagi milli fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og jafnréttismálaráðherra annars vegar og VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs hins vegar verði breytt til samræmis og að á árinu 2019 leggi ríkissjóður starfsendurhæfingarsjóði til framlag á fjárlögum.

Þá er í frumvarpinu lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2019 gagnvart þjóðkirkjunni, samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, muni hækka um 41,7 millj. kr. frá fjárlögum fyrir árið 2018. Jafnframt er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs hækki um 900.000 kr. á árinu 2019.

Gert er ráð fyrir að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 931 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 934 kr. fyrir árið 2019. Lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga breytist að öllu jöfnu í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Nú er hins vegar, eins og í fjárlögum fyrir árið 2018, með breytingu á lögum um sóknargjöld gert ráð fyrir að fastsetja fjárhæð sóknargjalda. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir samtals 3.303,2 millj. kr. í framlag til þeirra liða sem sóknargjald reiknast á að teknu tilliti til almennra aðhaldskrafna í forsendum frumvarpsins og nemur heildarhækkun sóknargjaldsins frá fjárlögum 2018 því 47,1 millj. kr.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárhæð losunargjalds vegna hvers tonns gjaldskyldrar losunar verði hækkuð úr 627 kr. í 1.256 kr. til samræmis við breytingar á meðalverði losunarheimilda á EES-svæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. júlí árið áður. Miðað við álagt gjald árið 2018 eru tekjuáhrifin 1–2 millj. kr.

Hér er sömuleiðis lagt til að lagfærð verði ýmis tollskrárnúmer sem bera eða ættu að bera úrvinnslugjald. Um er að ræða álagningu á smurolíu, svartolíu og hjólbarða á tækjum.

Næst ætla ég að minnast á tiltekið frávik sem nauðsynlegt er að óska eftir í frumvarpinu að eigi sér stað frá ákvæðum laga um opinber fjármál. Samkvæmt lögunum skal ráðherra eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi skýrslu þar sem fram kemur mat á líklegri þróun samfélags-, atvinnu-, umhverfis- og byggðaþátta og lýðfræðilegra breytna til næstu áratuga og áhrifum þeirra á afkomu, fjárhagsstöðu og skuldbindingar opinberra aðila. Að óbreyttu hefði skýrslan átt að koma fram fyrir árslok þessa árs, ársins 2018, en frá gildistöku laganna hinn 1. janúar 2016 hefur ekki gefist nægilegt ráðrúm til að ljúka þeim undirbúningi sem slík skýrsla þarfnast. Hér er til þess að líta að verið er að vinna þetta áratugamat í fyrsta skipti. Ákvæði í því frumvarpi sem ég mæli hér fyrir gerir ráð fyrir að veitt verði undanþága frá þeirri skyldu ráðherrans að leggja fyrir Alþingi umrædda skýrslu um samfélagsþróun og áhrif hennar á opinber fjármál. Skýrslan verður því lögð fram í fyrsta sinn í árslok næsta árs.

Að lokum er gert ráð fyrir að áfengisgjald verði miðað við upplýsingar sem fram koma á umbúðum áfengrar vöru og stjórnvöldum veitt heimild til að mæla vínandamagnið ef þau telja að upplýsingar á umbúðum séu rangar. Rekja má tilefni þessara breytinga á lögunum til niðurstöðu yfirskattanefndar í úrskurði nr. 116/2015. Þar kom fram að miða ætti álagningu áfengisgjalds við upplýsingar um vínandamagn áfengrar vöru sem fram kæmu í vottorðum vörunnar í þeim tilfellum þegar innflytjandi hennar gæti lagt slík vottorð fram, en fram við uppkvaðningu úrskurðarins hafði tollstjóri talið rétt að miða áfengisgjald í öllum tilvikum við upplýsingar á umbúðum vörunnar.

Mat á áhrifum tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt er þannig að vegna þess að tillögur frumvarpsins eru af margvíslegum toga eru áhrifin sömuleiðis af margvíslegum toga á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt. Áætlaður tekjuauki ríkissjóðs af 10% hækkun kolefnisgjalds er 550 millj. kr. að meðtöldum hliðaráhrifum sem ég hef hér rakið. Áhrifin á vísitöluna eru metin um 0,016% til hækkunar. Hækkun útvarpsgjalds og í Framkvæmdasjóð aldraðra nemur 179 milljónum en þessi gjöld hafa ekki áhrif á verðlag. Verðlagsuppfærsla krónutölugjalda á áfengi, tóbak, eldsneyti og bifreiðagjöld, auka tekjur ríkissjóðs um 1,6 milljarða kr. Þær hækkanir munu óhjákvæmilega hafa lítils háttar áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Þau eru áhrif áætluð 0,06%. Varðandi verðlagsuppfærslu krónutölugjalda er til þess að líta að án slíkrar verðlagsuppfærslu leiðir af sjálfu sér að viðkomandi gjaldskrár ríkisins lækka að raungildi og yfir tíma rýrir það sömuleiðis viðkomandi tekjustofna fyrir ríkið. Þeir halda þá ekki í við verðlag. Þetta eru tekjustofnar eins og hér er komið fram sem byggja á tiltekinni krónutölu, ólíkt t.d. fjármagnstekjuskatti, tekjuskatti, virðisaukaskatti og öðrum slíkum tekjustofnum sem eru ákveðið hlutfall af viðkomandi skattstofni. Þess vegna er fyrir því mjög löng hefð að við fjárlagagerðina sé tryggt að slíkir krónutölugjaldstofnar færist upp til samræmis við verðlag. Þó eru dæmi þess á undanförnum árum að ríkisstjórnin hafi ekki látið slíka gjaldstofna, eða ættum við að segja skattstofna, hækka til samræmis við verðlag. Við höfum á undanförnum árum látið þá standa í stað og þá rýrnuðu þeir að raungildi, mætti segja. Að þessu sinni er mælt með að þeir haldi í við verðlagsþróun.

Ég tek eftir því í umræðum um fjárlagafrumvarpið og tengd mál að menn líta á þetta sem skattahækkun. Það er auðvitað hægt að færa rök fyrir því að skatturinn sé að hækka; tekjurnar vaxa vissulega en þær vaxa ekki nema bara sem nemur breytingum á verðlagi frá ári til árs. Sem betur fer hefur okkur tekist að halda aftur af verðlagsþróun á undanförnum árum, þ.e. verðbólga hefur verið lág á Íslandi undanfarin ár. Ég tók líka mjög mark á því á sínum tíma þegar fram kom krafa um að ríkið væri ekki leiðandi í verðlagsþróun í landinu og upp frá því og fyrir nokkrum árum, undir lok árs 2013, ef ég man rétt, gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um að við myndum ekki láta þessa tilteknu skattstofna, þessa gjaldstofna, hækka umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans. Við höfum staðið við það síðan og hér er einmitt miðað við hækkun sem nemur verðbólgumarkmiðinu.

Það má segja að með því að fylgja þeirri stefnu til lengri tíma geti ríkið betur stutt við verðbólgumarkmiðið en ekki valdið því að verðlag í landinu hækki umfram verðbólgumarkmið.

Þetta var smáviðbót undir lok framsögu minnar sem snýr að áhrifum þess að láta þessi verðbólguáhrif koma fram með þessum hætti. Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.