149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:04]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég hygg að við séum sammála um ansi margt þegar kemur að þeim málum sem hv. þingmaður kom hér inn á. Ég get ekki staðist freistinguna fyrst að ég er kominn hingað, þó að ég hafi nú ekki beðið um orðið þess vegna, að taka sérstaklega til umræðu það sem nefnt var varðandi strætó. Mér finnst mjög athyglisvert og það eru margar rannsóknir um það hvaða áhrif það hefur að hafa ókeypis í strætó, hversu mikil áhrif það hefur á aðsókn í strætó, hvort það skipti meira máli en tíðnin eða hversu mikill forgangur er í umferðinni o.s.frv. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta þarf að skoða allt saman og er t.d. til fyrirmyndar hvernig gert er á Akureyri.

En ég kvaddi mér hljóðs bara til að hafa sagt það því að ég heyrði ekki betur en að hv. þingmaður segði að bílar sem gengju á hefðbundnu jarðefnaeldsneyti yrðu ólöglegir hér eftir 2030 samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar hygg ég að sé um mismæli að ræða því að það sem er að finna í aðgerðaáætluninni er að nýskráning slíkra bíla verði ólögleg. Það er ekki þannig að það verði refsivert — þetta er í raun og veru bara sagt fyrir þingtíðindin — að hreyfa slíka bíla frá og með 1. janúar 2030, svo það sé sagt.