149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér er skapi næst að segjast ekki ætla að lengja þessa umræðu, en venjulega, þegar það er sagt, er umræðan lengd í kjölfarið, þannig að ég ætla að láta það duga. Ég gleðst mjög yfir því að kolefnisgjald skuli vera að hækka um þessi 10% 2019 og síðan aftur 2020. Eins og hæstv. fjármálaráðherra fór yfir aflar það ríkissjóði um 550 milljóna á ári hvort árið fyrir sig, sum sé rúmur milljarður í heildina. Það er ágætt. Það er auðvelt að gleðjast yfir þessu.

Hæstv. fjármálaráðherra nefndi einnig að tekjur ríkissjóðs af kolefnisgjaldi verði í kringum 6 milljarða 2019. Það er auðvelt að gleðjast yfir því að við séum farin að skattleggja eða taka gjald fyrir, hvernig sem við viljum orða það, hegðun sem kemur niður á framtíð okkar allra og barnanna okkar. Það er mjög mikilvægt, finnst mér, að gjaldið sé tekið af þeim sem sú hegðun á við um. Auðvitað gerum við það öll reyndar að einhverju leyti enda borgum við sjálfsagt öll kolefnisgjald í einhverjum skilningi, óbeint í það minnsta.

Það er hins vegar ákveðin kaldhæðni fólgin í því að leggja skatt af þessu tagi á svona gjöld, sem er sú að ríkissjóður verður þá háður þessum tilteknu tekjum þegar að því kemur að draga úr losun, að draga úr vandanum. Það er vandamál sem hæstv. fjármálaráðherra hefur reyndar fjallað um áður — það er ekkert nýtt að fólk sé að velta þessu fyrir sér — þ.e. að þegar árangur næst í málaflokknum þá dragist tekjur ríkissjóðs saman og það bitni á heilbrigðiskerfinu, svona „freakonomics“, eins og það er stundum kallað. Gott ef ekki er fjallað um þetta í þeirri ágætu bók.

Þetta eru samt ekkert sérstaklega sterk rök gegn því að hækka kolefnisgjöld eða nota þá aðferð, að því gefnu að fólk sé meðvitað um þetta fyrir fram og sé reiðubúið til þess að bregðast við þegar jákvæða breytingin á sér stað, eins og er að gerast í tilfelli rafbíla. Yfirvöld vita mætavel að rafbílum mun fjölga. Þau vita mætavel að það þýðir að tekjur ríkisins af bensíngjaldi og þess háttar muni lækka og geta þá brugðist við. Það er bara pólitískt viðfangsefni hvers tíma. Það er allt í lagi að þetta sé svona, eins og ég segi, svo lengi sem yfirvöld eru meðvituð um þetta og reiðubúin til að bregðast við og pólitíkin ráði við verkefnið.

Í algjöru ábyrgðarleysi ætla ég að henda fram áminningu um eitt, ég ætla ekki að fara að rökræða það neitt. En mér finnst alltaf svolítið fyndið að lesa þegar eitthvað eins og áfengis- og tóbaksgjald er hækkað, vegna þess að mér finnst pínu hlægilegt hvað það er ofboðslegt tabú að ætla að fara að mótmæla því. Hverjum mundi detta í hug að mótmæla því? Ekki mér. Ég er ekki að segja að ég sé að mótmæla því, ég er bara að nefna hvað það væri fyndið ef einhver myndi mótmæla því.

Aðeins um almannatryggingar sem ég fór yfir með hæstv. fjármálaráðherra áðan. Hér eru framlengd bráðabirgðaákvæði sem varða málefni öryrkja og það sem mér finnst eftirminnilegast er frítekjumark atvinnutekna gagnvart útreikningi á — ég man ekki lok setningarinnar — tekjutryggingu. Í lögunum eru þetta 300 þús. kr. en í bráðabirgðaákvæði eru þetta 1,3 milljónir, sum sé frítekjumarkið. Það munar um minna að hafa svona frítekjumark. Þetta er bráðabirgðaákvæði sem var auðvitað sett á á sínum tíma af góðri ástæðu og við höfum verið að framlengja alla tíð síðan. Ég ætla nú ekki að endurtaka allt sem fór hér á milli mín og hæstv. fjármálaráðherra, en læt það duga að segja að mér finnst að við eigum bara að setja þessi ákvæði í meginefni laganna og breyta þeim þegar sú vinna hefur verið unnin sem miðar að því að finna heildarlausn á tilteknum vandamálum sem þessum bráðabirgðalausnum var ætlað koma til móts við. Að öðru leyti vísa ég til samtals mín við hæstv. fjármálaráðherra hér áðan.

Það sýður alltaf pínulítið í mér blóðið þegar ég les þetta frumvarp vegna þess að upp á síðkastið er þar alltaf ákvæði um það sem heitir samkvæmt stjórnarskrá Hin evangeliska lúterska kirkja. Ég hef ekkert sérstaklega á móti þeirri kirkju, ég er í meginatriðum ósammála henni heimspekilega, en það er í allt í góðu, ég þarf ekki að vera sammála öllum heimspeki- og trúarstofnunum landsins sem betur fer. Það fer hins vegar ofboðslega mikið í taugarnar á mér að það þyki sjálfsagt á Íslandi að vera með opinber trúarbrögð, sama hvaða trúarbrögð það eru, eða opinbert trúleysi ef út í það er farið. Mér finnst það jafn galið. Mér finnst það ótrúlegt, fyrirgefið hvað ég kemst í mikinn ham við að tala um þetta, ég bara ræð varla við mig þegar andinn kemur yfir mig, (Gripið fram í.)— góð spurning. Við kannski ræðum það síðar, hv. þingmaður. Góð spurning. Allur af vilja gerður til að ræða þau mál í þaula. Ég vil nefna það hér, bara til þess að hafa tönnlast aðeins á því, að þetta kirkjujarðasamkomulag sem gert var á sínum tíma við kirkjuna er eitthvað sem verður að endurskoða. Það að við séum að uppfæra lög hér sem ég hef ekki fullkomlega áttað mig á hvaða áhrif hafi í stóra samhenginu, það minnir mig á að þetta óeðlilega ástand er til staðar, að við séum með opinbera trú og ríkiskirkju og enn og aftur óháð því hvaða trú það er og óháð því hvaða kirkja það er. Það skiptir engu máli. Ég væri ekkert hressari með það að sú stofnun sem ég sjálfur er skráður í væri opinbert trú- eða lífsskoðunarfélag ríkisins Íslands. Mér þætti það jafn fráleitt. Ég nefni þetta aðallega til þess að hafa það í þingtíðindum að ég hafi vissulega lagt mig fram við að tuða eins mikið yfir því og mögulegt er.

Að öðru leyti ætla ég að ræða um meginefni næsta frumvarps í umræðu um það þótt það komi þessu frumvarpi líka við; það er hin svokallaða verðlagsuppfærsla, betur þekkt sem hækkun.