149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:44]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Frú forseti. Þetta er greinilega heitasta málið í dag, kolefnisgjaldið, og ég skal fara um það örfáum orðum, fyrir utan nokkur atriði sem ég hyggst taka hérna fyrir.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að ég beindi fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um áhrif af kolefnisgjaldinu, hversu mikið hafi dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi frá því að það var ákvarðað og hvernig árangurinn er mældur og metinn. Það er skemmst frá því að segja að í svarinu segir, með leyfi forseta, að „erfitt sé að meta nákvæmlega árangur af gjaldinu“. Nú var ekki spurt um neinar nákvæmar mælingar heldur stóru myndina og hún fæst ekki einu sinni.

Þegar spurt er hversu mikið kolefnisgjaldið hafi dregið úr notkun ökutækja árlega frá því að gjaldið var fyrst lagt á, þá segir, með leyfi forseta: „Útilokað er að nefna nákvæmar tölur í þeim efnum, en almennt er unnið að bættu mati á árangri aðgerða í loftslagsmálum …“

Hér dugir ekkert að halda því fram að hærra verð muni draga úr notkun. Það er ekki verið að spyrja um það, það vita allir, hér er auðvitað farið fram á miklu meira.

Í þriðja lagi er spurt um hvaða áhrif fyrirhuguð hækkun kolefnisgjalds um 10% á ári næstu tvö ár muni hafa. Enn er svarað á sömu lund, með leyfi forseta:

„Ekki hefur verið gert mat á líklegum áhrifum þess, mælt í minnkun losunar frá því sem ella hefði verið. Unnið er að bættum spám um þróun losunar og mati á árangri aðgerða af hálfu Umhverfisstofnunar …“

Frú forseti. Það sem liggur hér fyrir er að stjórnvöld fylgja stefnu sem þau hafa ekki hugmynd um hvaða áhrif hefur. Þessi stefna felur það m.a. í sér að hér eru lagðar miklar byrðar á fólk, sérstaklega notendur ökutækja, í því samhengi sem við ræðum þetta. Það hefur komið fram að sérstaklega leggist þetta þungt á íbúa á landsbyggðinni sem ekki hafa sama kost á því og íbúar í þéttbýlinu að nota rafmagnsbíla. Þeir hafa ekki möguleika á því að nota metan sem ekki er selt utan höfuðborgarsvæðisins nema það sé kannski ein dæla á Akureyri. Það er svolítið meira en að segja það að ákvarða þetta gjald með þessum hætti.

Síðan kemur glögglega fram í greinargerð sem hefur verið rakið hérna af öðrum hv. þingmönnum að þetta gjald á að skila 550 milljónum, þetta viðbótargjald sem nú kemur til, þessi nýja 10% hækkun á gjaldinu. Það kemur sömuleiðis fram að þetta sé talið valda, eins og það heitir, 0,05% hækkun á verðlagi. Þá spyr maður um áhrif á greiðendur af íbúðalánum, þau eru einhvers staðar á bilinu 1.500–2.000 milljarðar, sennilega nær 2.000. Einfaldur útreikningur leiðir það í ljós að þessar viðbótartekjur sem ríkissjóður verður sér þarna úti um upp á 550 milljónir hafa þá hliðarverkan, frú forseti, að það stofnast nýjar kröfur á hendur heimilum þessa lands upp á milljarð og að lánastofnanir eignast með þessu, af því að ríkisstjórnin er að fylgja einhverri stefnu sem hún hefur ekki hugmynd um hvaða áhrif hefur, nýjar kröfur á heimilin upp á allt að 1 milljarði króna.

Munurinn á aðilum í þessu efni er sá að heimilin eru algjörlega varnarlaus fyrir áhrifum af kolefnisgjaldinu. Í fyrsta lagi mega þau náttúrlega borga það þegar þau taka bensín á bílinn og allt saman það, en síðan mega þau þola það að höfuðstóll á lánum hækkar og greiðslur þyngjast. En fjármálastofnanirnar eru í allt annarri aðstöðu. Þær hafa eignast lögvarðar kröfur á hendur heimilunum og allir borðalögðu embættismennirnir og allt apparatið og dómstólarnir og hvað heita má er allt á bandi fjármálastofnananna og allt aflið nýtist þeim og er að baki þeim við að innheimta þessar kröfur sem stofnast vegna kolefnisgjaldsins.

Nú er það svo, frú forseti, að kolefnisgjaldið er bara hluti af heild. Það eru margvísleg önnur gjöld sem eru lögð á sem hafa verðhækkunaráhrif. Það vill bara þannig til að þetta er tiltölulega lítið og auðvelt að tala um þetta því þetta eru fjárhæðir sem ég geri ráð fyrir að margir eigi auðvelt með að skilja. En síðan geta menn hugsað um áhrifin af hækkunum eins og hér er til að mynda mælt fyrir um á áfengi og tóbaki. Þær hafa nákvæmlega sömu áhrif á verðlagið og þar á meðal á heimilin, færa fjármálastofnunum náttúrlega þessa himnasendingu, nýjar lögvarðar kröfur, og munurinn er sá einn að þessar kröfur eru miklu hærri í fjárhæðum, miklu hærri.

Þetta er sú aðstaða sem menn hafa mátt búa hérna við. Þetta er einn af fylgifiskum verðtryggingarkerfisins sem á sér mjög eindregna stuðningsmenn á Alþingi en um leið eru hér menn sem hafa leitast við að taka á þessum vanda. Ég leyfi mér að nefna það að ég mælti í gær fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu, sem er flutt af öllum þingmönnum Flokks fólksins og Miðflokksins, þar sem m.a. er tekið á þessu og kveðið á um það að verðtrygging íbúðalána sé bundin því skilyrði að áhrif af þessu tagi reiknist ekki.

Ég ætla sömuleiðis að nefna í samhengi við kolefnisgjaldið að hér liggur fyrir fyrirspurn frá mér til fjármála- og efnahagsráðherra um kolefnisgjald. Ég vænti mikils af svari hans. Þar er m.a. spurt um meginmarkmið stjórnvalda með álagningu kolefnisgjalds, þetta er í einum átta liðum, og sömuleiðis er spurt, svo ég leyfi mér að nefna það, til hvaða mótvægisaðgerða hafi verið gripið til að verja heimilin fyrir neikvæðum áhrifum á greiðslubyrði og höfuðstól lána vegna álagningar kolefnisgjalds.

Ég ætla þá að víkja að öðru, frú forseti. Ég ætla með leyfi að drepa niður fæti á örfáum stöðum, tíminn sem skammtaður er leyfir ekki meira svo sem eðlilegt er. Hér er lagt til að ákvæði til bráðabirgða VII verði framlengt í lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra. Þessi aðgerð hefur þau áhrif að þarna er áfram veitt heimild til þess að hluta af fé þessa sjóðs verði varið til rekstrar en eins og menn vita þá var þessi sjóður upphaflega settur á laggirnar með það fyrir augum að hann væri notaður til framkvæmda og viðhalds. Því hefur verið veifað hér þegar verið er að mæla fyrir þessum svokallaða þjóðarsjóði að hann eigi að hafa verkefni með höndum varðandi húsnæðismál aldraðra, en varla þarf að stofna þjóðarsjóð í því skyni, frú forseti, við eigum hér Framkvæmdasjóð aldraðra og þarf ekki annað en að menn spari sér tillöguflutning eins og þennan sem við höfum núna fyrir framan okkur um að framlengja heimild til þess að nota fé sjóðsins í rekstur. Ef það væri bara ákveðið að þetta fé væri notað til framkvæmda og viðhalds þá myndi náttúrlega gegna allt öðru máli í húsnæðismálum aldraðra, sérstaklega ef til þessa ráðs hefði verið gripið fyrr.

Ég leyfi mér að nefna það að menn mega vænta frumvarps um þetta efni sem mun hafa að markmiði að fé Framkvæmdasjóðs aldraðra nýtist með þeim hætti sem til sjóðsins var stofnað. Ég minni sömuleiðis á í þessu samhengi að allir landsmenn meira og minna, innan ákveðinna aldursmarka að sjálfsögðu, greiða árlega til þessa sjóðs og það er alveg útilokað annað en þeir njóti þess þegar þeir eru komnir á efri ár að eiga kost á viðunandi húsnæði fyrir aldraða.

Frú forseti. Hér er kafli sem heitir Framlag til þjóðkirkjunnar og Kristnisjóðs. Ég vil bara segja eitt um þetta, minna á það að þjóðkirkjan nýtur sérstakrar verndar í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Ég leyfi mér að treysta því, frú forseti, að þær ákvarðanir sem hér eru kynntar og varða málefni kirkjunnar séu teknar í góðu samkomulagi við yfirvöld kirkjumála.

Þá kem ég að úrvinnslugjaldi. Ég get verið stuttorður um það því að hv. þm. Birgir Þórarinsson fór mjög rækilega yfir svartolíumálin í sinni ræðu, af fræðilegri nákvæmni liggur mér við að segja. Ég vil, frú forseti, taka undir hvert orð sem gekk fram af hans munni um þetta atriði. Svartolían er náttúrlega afar mengandi eins og menn þekkja og það er ekki gott til þess að hugsa að það séu jafnvel ný skip í fiskiskipaflotanum sem nota svartolíu vegna þess að hún sé ef til vill ódýrasti kosturinn. Hér hafa menn úrvinnslugjaldið sem hægt er að nota nú á tímum þegar menn eru vaknaðir til vitundar um umhverfismengun og annað af því tagi. Ég leyfi mér ósköp einfaldlega að hvetja til þess að þetta úrvinnslugjald verði stillt þannig af að notkun á svartolíu heyri jafnvel sögunni til, en ella verði í algjöru lágmarki.

Ég hef lokið máli mínu, frú forseti.