149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[18:20]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við erum sammála um margt og m.a. það að þetta sé dálítið flókið mál. Mér hefur þótt einnar messu virði að setjast betur yfir það hlutverk sem við búum Ríkisútvarpinu, hvernig við sjáum hlutverk þess í íslensku samfélagi. Ég ítreka að ég tel að hlutur þess sé mjög mikilvægur og að það gegni mjög miklu hlutverki og að standa verði vörð um Ríkisútvarpið. Nákvæmlega hver blandan á að vera milli auglýsingatekna annars vegar, framlags sem kemur frá hinu opinbera og svo áskriftargjalda, sem eru bara tekin af öllum landsmönnum sem hafa náð ákveðnum aldri, finnst mér þess virði að setjast yfir og skoða. Þar hangir líka á spýtunni hver reksturinn eigi að vera, hvað eigi að fást í staðinn fyrir fjármunina.

Það sem hv. þingmaður nefnir varðandi Norðurlöndin er eitthvað sem ég hef vel getað hugsað mér. Þá er ástæða til að líta til þess hvernig búið er um rekstur þar. Er hann allur í fyrirtæki? Eru mismunandi stöðvar? Gegnir öðru um útvarp en sjónvarp? Og þannig mætti áfram spyrja.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir með auglýsendur. Eðlilega. Við erum búin að búa hér til ríkisrekinn auglýsingakaupanda sem nær til allra landsmanna. Ég hef fleygt því að kannski ætti að nýta þá stöðu sem búið er að búa hér til til þess að selja auglýsingarnar og sýna, en kannski ættu aðrir en Ríkisútvarpið endilega eitt að njóta þeirra. Því við erum búin að koma (Forseti hringir.) því í þessa stöðu.

Aftur: Þetta hangir allt að mínu viti á því að við skilgreinum nákvæmlega hvernig við sjáum hlutverk Ríkisútvarpsins sem menningarstofnunar.