149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[18:23]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður deilum dálæti á Ríkisútvarpinu og ákveðinni sýn á þessa stofnun, held ég. Við sjáum hana báðir sem ákveðið samhengi í íslenskri menningu alveg frá 1930. Þetta er stofnun sem geymir ákaflega mikla og mikilsverða sögu sem við þurfum að passa vel upp á og sýna virðingu um leið og þetta á að vera lifandi menningarstofnun sem er spegill bæði fyrir þjóðlífið eins og það er og líka vettvangur fyrir það besta sem er fram borið í þjóðlífinu; vettvangur fyrir fréttir sem eru áreiðanlegar og sannar og réttar og fyrir umræðu sem er málefnaleg og til þess fallin að leita hins sanna og rétta.

Hvernig fyrirkomulagið á nákvæmlega að vera á tekjuöflun Ríkisútvarpsins, aðrir eru betur til þess fallnir en ég að finna út úr því. (Gripið fram í.) Ég er viss um að hv. þingmaður er miklu betur til þess fallinn að finna út úr því en nokkru sinni ég. Og það eru engar heilagar kýr fyrir mér í þeim efnum. Auglýsingadeild Ríkisútvarpsins er svo sannarlega ekki heilög kýr fyrir mér. Hún er heldur ekki bleikur fíll fyrir mér. Það þarf að finna út úr þessu öllu en aðalatriðið er að við búum sómasamlega að þessari stofnun, við hættum að fjandskapast við hana, eins og er algengt og maður verður var við, og búum vel og virðulega (Forseti hringir.) að henni og henni verði bættur skaðinn.