149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[18:29]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég hef hlustað af nokkurri athygli á málflutning hv. þm. Ólafs Ísleifssonar og af æ meiri athygli eftir því sem hann lengist. Ég verð að segja að mér finnst margt sérkennilegt með það hvernig hv. þingmaður nálgast þetta mál.

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson fór hér í andsvar áðan, taldi hv. þm. Ólaf Ísleifsson hafa farið með rangar tölur, viðurkenndi í tvígang í máli sínu að engu að síður væru það vissulega áhrif en það væri þó munur á 300 milljónum og einum milljarði. Hv. þm. Ólafur Ísleifsson stóð hér í pontu og það gaus úr honum eins og hann væri í útvarpstíma á Útvarpi Sögu, hve lítil brjóstvörn væri falin í hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir heimilin í landinu og ég veit ekki hvað og hvað. Þegar það eina sem hafði gerst var að bent var á að mögulega hefði verið rangt verið farið með tölu og undirstrikað mikilvægi þess að þegar við erum að ræða þessi mál þá færum við rétt með tölur.

Nú hefur hv þm. Ólafur Ísleifsson aftur komið hér í pontu og jú, vissulega játað að rangt var farið með töluna. En hv. þingmaður heldur áfram að ýja að því að þetta finnist nú öðrum ekki skipta neinu máli þrátt fyrir ítrekaðar setningar hv. nafna hans, Ólafs Þórs Gunnarssonar, um að vissulega skipti þetta máli.

Ég held að hv. þingmaður ætti að stíga skrefinu lengra, ekki bara að játa það að talan hafi verið röng, heldur einfaldlega að biðjast afsökunar á því hvernig hann tók á móti þessari ábendingu hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar.