149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Höfundaréttur virkar á flesta sem tæknilegt og leiðinlegt umræðuefni en á hinni svokölluðu upplýsingaöld þar sem upplýsingar, framleiðsla þeirra, miðlun, dreifing og notkun einkennir samfélagið gjörvallt, hvort sem er á sviði einkalífs, félagslífs, atvinnulífs, náms eða stjórnmála, leikur hann lykilhlutverk.

Höfundarétti var komið á til að verja hagsmuni höfunda sem á sínum tíma voru fáir. Í dag framleiðum við hins vegar öll eitthvert efni, deilum því og við notum í meira mæli en nokkru sinni fyrr á öllum sviðum mannlífsins. Af þessu leiðir að höfundaréttur varðar allt sem við gerum með upplýsingatækni. Þegar höfundaréttarlög ganga of langt á getu fólks til að miðla upplýsingum dregur hann úr tækifærum og möguleikum á öllum sviðum, þar á meðal menningar.

Nú eru tvær arfavondar hugmyndir í vinnslu í Evrópusambandinu en það eru greinar 11 og 13 í tilskipun um höfundarétt á hinum stafræna innri markaði, á ensku kölluð „Directive on Copyright in the Digital Single Market“. Þessar tvær greinar innleiða svokallaðan tenglaskatt og upphalssíur, á ensku kallað „Link Tax“ og „Upload Filters“. Ég veit að þetta er leiðinlegt og tæknilegt en þetta skiptir máli og ég bið þingmenn um að hlusta. Þetta eru hvort tveggja hugmyndir sem ganga gegn frjálsu og opnu interneti með tilheyrandi afleiðingum fyrir getu okkar allra til að skapa og deila sjálfsprottinni menningu okkar. Þetta er auðvitað réttlætt með vísan til hagsmuna höfunda og það markmið er gott en tilgangurinn helgar ekki meðalið og gott markmið er ekki trompspil fyrir hvaða hörmulegu hugmynd sem er.

Ef þessar vondu hugmyndir fylgja endanlegri tilskipun má búast við upptöku þeirra í EES-samninginn á þessu kjörtímabili. Ef það gerist er mikilvægt að íslenskir þingmenn skilji ógnina sem felst í þessum tveimur greinum og séu reiðubúnir að draga sem mest úr þeim skaða sem þær munu annars valda.

Höfundaréttur varðar dreifingu upplýsinga og dreifing upplýsinga skiptir allt samfélagið máli. Internetið er ekki eitthvert leikfang og þótt höfundaréttur sé vissulega nauðsynlegur er hann kominn út í öfgar þegar hann stendur í vegi fyrir menningunni sjálfri sem honum er ætlað að styðja við og vernda.