149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér heilbrigðiskerfið okkar, draga fram það sem kann að skipta máli umfram annað. Það leikur enginn vafi á því í alþjóðlegum samanburði að við eigum gott heilbrigðiskerfi. Auðvitað ekki hnökralaust, hvort sem við ræðum biðlista eða lyfjaskort, en við höfum sannarlega í meira mæli verið að fjárfesta í þessu kerfi, bæði í fastafjármunum og mannauði, hvort tveggja til að mæta lýðfræðilegri þróun og auknum fjölda sem þarf að sækja þjónustuna. Það sem ætti kannski að skipta mestu máli er að okkur takist að mæta þessu aukna álagi og kröfum um þjónustu. Á sama tíma er það keppikefli að allir geti notið þjónustunnar óháð efnahag og búsetu og við höldum áfram að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Þetta eru meginmarkmiðin, þau eru krefjandi, en um þessi meginmarkmið ríkir einhugur. Þetta ætti að vera það sem skiptir máli og innan þess sem heitir félagslegt heilbrigðiskerfi. Þar rúmast mjög vel hér eftir sem áður frjáls félagasamtök, sjálfstætt starfandi læknar með mikla sérþekkingu o.s.frv.

Það hefur hvergi komið fram í umræðunni sem þó hefur verið nokkur að þeirri gæðaþekkingu, að því greiða aðgengi og samvinnu sem ríkir í kerfinu eigi að kasta fyrir róða, heldur þvert á móti er fjárlagafrumvarpið beinlínis til vitnis um það að við erum að styðja enn frekar við kerfið varðandi þennan þátt.

Heilbrigðismálin eru svo sannarlega í forgangi hæstv. ríkisstjórnar. Framlög eru aukin verulega, fyrst fyrir fjárhagsárið 2018 og nú um 12,6 milljarða að raunvirði í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019. Öflugra heilbrigðiskerfi er sannarlega í forgangi hæstv. ríkisstjórnar.