149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

erfðafjárskattur.

10. mál
[17:43]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg réttmæt athugasemd. Setningin sem hv. þingmaður er að vitna til, „til viðbótar tekjuskatti“, er villandi og skrifast á þann sem hér stendur.

Það sem ég á hins vegar við og það sem stendur í greinargerðinni varðandi tvísköttun er að það er alveg ljóst að þær eignir sem um er að ræða, og eru að færast á milli kynslóða, eru eignir sem búið er að greiða af skatta og gjöld allan þann tíma sem þær hafa verið til, hvort heldur það er tekjuskattur þegar viðkomandi var að vinna sér inn tekjur, eignarskattar, fjármagnstekjuskattar o.s.frv. Í sjálfu sér er þannig búið að greiða skatta og við getum farið út í dýpri umræðu um að hér er auðvitað tvísköttun í gangi á fleiri sviðum. En ég hygg að það deili enginn um það að erfðafjárskatturinn feli í sér tvísköttun. (Forseti hringir.) Spurningin er bara: Er það óeðlilegt? Er það ranglátt? Já, það finnst mér, en ég (Forseti hringir.) reyni hér hins vegar að koma til móts við þá sem telja að eðlilegt sé að skattleggja eignaskipti milli kynslóða með einhverjum hætti.